133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:28]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni þetta frumvarp. Ég tel engan veginn ásættanlegt, eins og hún sagði, að launamunurinn lagist ekki nema á svona löngum tíma. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa skýrslu sem sýndi að okkur hefur lítið sem ekkert miðað á undanförnum áratug.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann. Nú erum við stöðugt að ganga inn á persónuvernd af ýmsum ástæðum. Þær eru hryðjuverk, mansal, eiturlyf og svo eru það hleranir. Við erum alltaf að ganga inn á persónuverndina af góðum og gildum ástæðum: Hversu langt vill hv. þingmaður ganga í því að rjúfa friðhelgi persónufrelsisins og einkalífsins með góðum og gildum rökum?

Nú er hv. þm. Ögmundur Jónasson, samflokksmaður hv. þingmanns, afskaplega varkár í því að ganga á rétt einstaklinga. Hér er verið að ganga á rétt og aflétta ákveðinni persónuvernd sem eru laun. Það getur vel verið að einhver úti í þjóðfélaginu hafi töluverðan áhuga á því að vita hvað ákveðin kona eða ákveðinn maður hefur í laun.

Svo er það misskilningurinn um starf og vinnu. Einn maður getur verið óskaplega duglegur og atvinnulífið vill borga honum kannski tvöfalt hærri laun þess vegna, annar er með menntun, þriðji snjall og leysir öll mál skynsamlega. Annar hefur mikla reynslu og honum er borgað sérstaklega því að hann þekkir sögu fyrirtækisins langt aftur í tímann. Sumir hafa mikla og góða ástundun, aðrir eru stundvísir, sumir eru skemmtilegir og lífga upp á félagsskapinn. Allt eru þetta ástæður til að borga mönnum mismunandi laun. Hvernig ætlar hv. þingmaður að taka á því þegar í ljós kemur að tveir einstaklingar eru með mismunandi laun vegna þess að annar er með meiri menntun, hinn er miklu skemmtilegri eða þá miklu duglegri?