133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:30]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hve langt ég vilji ganga varðandi friðhelgi einkalífsins eða persónuvernd einstaklinga í þessum efnum. Staðreyndin er sú að þegar um mannréttindabrot er að ræða og að öllum líkindum lögbrot gagnvart einstaklingum, það ekki bara örfáum heldur stórum hluta kvenna á Íslandi, vil ég auðvitað ganga eins langt og hægt er til að aflétta þeim mannréttindabrotum.

Ég tel að tækin sem hér er verið að fjalla um, varðandi launaleyndina, séu þess eðlis að þau yfirvöld sem með færu gerðu það með fullri virðingu fyrir viðkomandi einstaklingum og viðkomandi upplýsingum. Við vitum að Fjármálaeftirlitið og skattayfirvöld hafa ákveðin völd. Við teljum að sambærileg völd eigi að vera í höndum Jafnréttisstofu. Við teljum ekki að með þessum leiðum yrði nein hætta á að misfarið yrði með þessar upplýsingar. Þær yrðu eingöngu notaðar til að leiðrétta mannréttindabrot og mismunun sem er bönnuð með lögum en konur verða fyrir í samfélagi okkar í dag.

Í öðru lagi nefnir hv. þingmaður breyturnar: að vera duglegur, stundvís og skemmtilegur. Ég spyr hv. þingmann á móti. Úr því að karlar eru svona miklu hærra launaðir en konur í dag, ætlar hv. þingmaður þá að segja mér að það sé að öllum líkindum vegna þess að karlmenn séu duglegri, skemmtilegri og stundvísari en konur? Auðvitað ekki. Konur er líka duglegar, skemmtilegar og stundvísar. Það má líka launa þeim fyrir það. Eins og málin standa í dag virðist það ekki gert. Ég vil breyta því.