133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:36]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni afar merkilegt mál að mínu viti þar sem lagðar eru fram áætlanir um aðgerðir til að ná fram launajafnrétti kynjanna í reynd. Eins og hv. framsögumaður nefndi áðan hefur ítrekað á þessu kjörtímabili verið flutt mál til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla. Það er merkilegt að stjórnarandstaðan nái saman um að flytja saman eitt mál, fella saman þau frumvörp sem flutt hafa verið um málið á þessu kjörtímabili í eitt frumvarp. Ég tel afar bitastæð ákvæði í þessu frumvarpi sem vekja vonir um að hægt sé að ná jafnari stöðu og rétti kvenna og karla en verið hefur hingað til.

Það er afar sorglegt til þess að vita hve hægt gengur. Ítrekaðar kannanir hafa sýnt fram á það. Það er ekki bara um að ræða mikið launamisrétti kynjanna heldur gengur afskaplega hægt að jafna hlut kvenna í stöðuveitingum í hærri embættum, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði.

Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á þessu kjörtímabili kom glöggt í ljós hve lítill hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja er hér á landi, hvort sem litið er til stjórna í stærri hlutafélögum eða hjá lífeyrissjóðum. Mig minnir að hlutur karla hafi verið yfir 90%, hvort sem litið var til stjórna lífeyrissjóðanna eða stjórna í stærri hlutafélögum. Ég held að það hafi verið um 50 hlutafélög sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um. Í öllum tilvikum var hlutur kvenna innan við 10%. Sú skoðun hefur komið upp, sem ætti alvarlega að hugleiða, hvort lögbinda ætti ákveðinn hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja.

Ég tel að hér séu á ferðinni gagnlegar aðgerðir til að jafna rétt kvenna og karla. Það hafa verið reyndar ýmsar aðferðir í þessum, náttúrlega eilífar launakannanir sem ávallt staðfesta hið sama, þ.e. mikinn launamun kynjanna.

Það var afar sorglegt að hlýða á hæstv. félagsmálaráðherra fyrir nokkrum dögum þegar hann lýsti nýlegri könnun sem þá sá dagsins ljós. Hún sýndi að nánast enginn ávinningur hefði orðið á síðastliðnum tíu árum í að jafna launamun kynjanna. Reyndar má segja að sú skýrsla hafi staðfest þá stöðnun sem ríkt hefur þennan áratug og reyndar lengur.

Það eru 30 eða 35 ár síðan samþykkt voru lög um að jafna launamun kynjanna á sex árum. Þegar það hafði tekist þannig að taxtar voru jafnaðir þá fundu menn aðrar leiðir til að viðhalda þeim launamun sem er á milli karla og kvenna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa menn ekki fundið leið til að ná upp á borðið þeim launamun sem er í alls konar duldum greiðslum, fríðindum og bílastyrkjum á hinum opinbera markaði og reyndar á almenna markaðnum líka.

Það er afleitt að enn skuli vera launamunur í þessu formi hjá hinu opinbera. Kannanir sem hafa verið gerðar og fyrirspurnir sem m.a. ég hef borið fram í þingsal hafa sýnt fram á að bílastyrkir og ýmislegt sem hið opinbera hefur til að viðhalda þessum launamun, að slíkar hlunnindagreiðslur renna í meiri mæli til karla en kvenna. Það er alvarlegt að stjórnvöld geri ekki meira í málinu til að vera í fararbroddi fyrir því þá að ná fram launajafnrétti. Það er kannski forsenda þess að almenni markaðurinn hreyfi sig í þá átt að jafna launin, að hið opinbera og stjórnvöld vinni að því eins og lög gera ráð fyrir, að ekki sé mismunur í launamálum kynjanna.

Í umræðunni um daginn ræddum við hæstv. félagsmálaráðherra nokkuð tillögu sem var flutt fyrir tveimur til þremur árum og felld inn í framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Raunar hefur ekkert gerst í því máli, virðulegi forseti, á þeim tveimur og hálfa ári síðan Alþingi samþykkti tillögu um áætlun til nokkurra ára sem felld yrði inn í þessa framkvæmdaáætlun. Í þeirri áætlun var kveðið á um að beita mætti svokallaðri jákvæðri mismunum til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Það er miður að ekki skulið lengra á veg komið með þá áætlun vegna þess að hún átti að líta dagsins ljós fyrir a.m.k. einu til tveimur árum síðan.

Hæstv. ráðherra nefndi að forsendan fyrir þeirri áætlun væri sú launakönnun sem nú hefur verið gerð opinber. Við skulum vona að hæstv. ráðherra vindi sér í að ganga frá slíkri áætlun í samráði við aðila vinnumarkaðarins, bæði á almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera. Þessi tillaga gerði ráð fyrir tveimur framkvæmdaáætlunum, annars vegar fyrir opinbera markaðinn og hins vegar fyrir almenna markaðinn. Ég held að það sé þess virði að reyna, m.a. í gegnum kjarasamninga, að jafna þann mun sem er á launum karla og kvenna.

Það hefur sýnt sig að Reykjavíkurborg náði allgóðum árangri í því á tímum R-listans að minnka þann kynbundna launamun sem viðgengist hafði hjá Reykjavíkurborg. Ef ég man rétt þá held ég að hinn kynbundni launamunur hafi þá minnkað um helming. Þá var gert ráð fyrir ákveðinni púllíu í kjarasamningum, fjármagni til að nýta sérstaklega til að jafna hlut karla og kvenna í launum. Það held ég að sé aðferð sem hafi reynst vel og eigi að nýta betur en gert hefur verið.

Það á auðvitað að fara út í það sem menn hafa aldrei treyst sér í, þ.e. að kortleggja hvernig hægt er að beita því ákvæði sem er til staðar í jafnréttislögunum, þ.e. ákvæðinu um jákvæða mismunun. Menn hafa aldrei lagst almennilega yfir það hvernig hægt sé að beita því ákvæði, sem ég held að mundi gagnast, sem hefur í þó nokkur ár verið inni í jafnréttislögum.

Hv. framsögumaður hefur gert góða grein fyrir þessum þremur leiðum sem hér eru settar fram, sem saman mynda ákveðna heild til að hafa áhrif á að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna. Í fyrsta lagi frumvarpi sem Vinstri grænir hafa flutt á þessu kjörtímabili, um tæki til að framfylgja lagaskyldu um jöfn laun karla og kvenna. Hins vegar frumvarpi Samfylkingarinnar um afnám launaleyndar. Þetta tvennt tel ég að sé afar mikilvægt til að ná fram launajafnrétti, þ.e. hvernig launamisréttið er falið í duldum greiðslum og fríðindum sem aldrei koma upp á yfirborðið. Það er auðvitað staðreynd að í krafti launaleyndar hefur launamisréttið þrifist.

Hér er gerð tillaga um að afnema launaleynd til hægt sé að fá upp á borðið við hvað er á að takast í þessu og hvernig er best hægt að gera það, ef afnám launaleyndar verður samþykkt.

Ég hef síðan flutt frumvarp um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi og ég held að það ásamt því að afnema launaleyndina sé ákaflega mikilvægt. Við höfum það fyrir okkur að kærunefnd jafnréttismála hefur margsinnis úrskurðað að um hafi verið að ræða brot á jafnréttislögum. Það eru tilvik sem snerta stöðuveitingar og síðan að því er varða launamisrétti milli kynjanna en síðan hefur málið yfirleitt stoppað og ekki verið úrræði til að framfylgja niðurstöðum kærunefndar jafnréttismála.

Ég hef upplýsingar um úrskurði kærunefndar frá árunum 1991–2001, og þyrfti auðvitað að fá nýrri, en þá kom fram að í 55% tilvika taldi nefndin ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafa verið brotin en þau lutu flest að stöðuveitingum. Fjöldi þeirra laut einnig að launajafnrétti kynjanna. En hlutverk Jafnréttisstofu er að fylgja eftir áliti kærunefndar og getur hún samkvæmt 3. gr. jafnréttislaga höfðað mál til viðurkenningar á rétti kærenda á grundvelli álitsgerðar kærunefndar jafnréttismála þegar sérstaklega stendur á og ætla má að úrskurðir dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis og/eða ef hagsmunir kærenda eru metnir þess eðlis að mikilvægt þyki að fá úrlausn dómstóla. Hins vegar hefur komið fram að það er verulega flókið og ýmsum vandkvæðum bundið að fylgja álitum kærunefndar og iðulega hafa niðurstöður kærunefndar jafnréttismála verið teknar upp á Alþingi bæði varðandi stöðuveitingar og launajafnrétti kynjanna.

Ég tók sérstaklega upp eitt mál eftir að ég hafði fengið svar við fyrirspurn á Alþingi. Það laut að bifreiðastyrkjum og hlunnindum í bankakerfinu, hjá bönkunum. Mér fannst á því svari sem ég fékk frá viðskiptaráðherra í því máli að augljóslega væri um að ræða brot á jafnréttislögum þar sem konur, þó þær gegndu algerlega sambærilegu starfi og karlar, fengu miklu lægri launastyrki og hlunnindi. Því máli vísaði ég til kærunefndar jafnréttismála sem fjallaði um það og komst að þeirri niðurstöðu að ætla mætti að jafnréttislög hefðu verið brotin að því er varðar þessar greiðslur og því var sérstaklega beint til bankanna — þetta var fyrir nokkrum árum — að leiðrétta þennan mun sem kærunefndin hafði samþykkt. Þegar ég spurðist fyrir um þetta nokkru síðar var lítið um svör hvað hefði verið gert til að framfylgja þessu áliti kærunefndar. Þetta er bara eitt dæmi um það, virðulegi forseti, hve nauðsynlegt er að hafa úrskurði kærunefndar bindandi. Eins og ég sagði áðan er verulega flókið og ýmsum vandkvæðum bundið að fylgja eftir álitum kærunefndar og þess vegna er þetta ein leið til að ná fram jöfnum rétti og jafnri stöðu kvenna og karla.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa fleiri orð um málið. Það hefði vissulega verið ástæða til að ræða þá launakönnun sem hér hefur verið birt og var rædd lítillega í fyrirspurnatíma fyrir viku síðan. Ég taldi þá ástæðu til að biðja um umræðu utan dagskrár um þá niðurstöðu sem þar kom fram, sem ég tel ástæðu til að ræða að viðstöddum félagsmálaráðherra og vil því bíða með að ræða það mál þar til félagsmálaráðherra er viðstaddur. Hæstv. félagsmálaráðherra verður að svara því hvernig hann ætlar að bregðast við þeim upplýsingum og niðurstöðum sem þarna koma fram, þeirri stöðnun sem þessi könnun lýsti greinilega um það sem gerst hefur hér á síðustu tíu árum, að nákvæmlega ekkert hefur gerst til að jafna launamun kynjanna. Það er ekki nóg eins og hæstv. ráðherra sagði opinberlega að hann mundi kalla til aðila vinnumarkaðarins til samstarfs við stjórnvöld, bæði atvinnurekendur og stéttarfélög, í þessu efni. Það verður kannski að fara róttækari leiðir eins ég nefndi í máli mínu með jákvæðri mismunun. Þau hænufet sem okkur miðar í að jafna launamun kynjanna eru algerlega óþolandi. Það er sláandi sem kom fram í grein í Viðskiptablaðinu fyrir ekki löngu síðan, en höfundur þeirrar greinar var viðskipta- og markaðsfræðingur, Katrín Anna Guðmundsdóttir. Hún og fleiri hafa látið reikna það út að með þessum sömu aðferðum og beitt hefur verið og þeirri sömu þróun og verið hefur á umliðnum árum, þá taki 628 ár að ná fram launajafnrétti. Það er auðvitað óþolandi að eiga að búa við það í næstu framtíð. Þess vegna hvet ég til þess að við beitum róttækum aðferðum til að taka á launamun kynjanna. Þær leiðir og aðferðir sem lýst er í frumvarpinu eru vissulega til þess fallnar að feta okkur frekar áfram í að jafna stöðu og jafna rétt kvenna og karla heldur en okkur hefur tekist á umliðnum áratug eða áratugum.