133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga sem fulltrúar allra flokka stjórnarandstöðunnar hafa sameinast um en flutningsmenn eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson.

Flutningsmenn, þar á meðal 1. flutningsmaður, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hafa gert ágætlega grein fyrir frumvarpinu en megininntak þess lýtur að því að jafna stöðu kvenna og karla. Ég ætla að vísa aðeins í tvær tilteknar greinar í frumvarpinu á eftir en vekja athygli á því sem fram hefur komið undanfarna daga eða verið staðfest eina ferðina enn, hve mikill hinn kynbundni launamunur er í þjóðfélaginu og hve lítið hann hefur breyst þrátt fyrir miklar heitstrengingar á undanförnum árum.

Fyrir nokkrum dögum var birt könnun sem unnin var á vegum félagsmálaráðuneytisins. Það var Gallup sem hafði það verk með höndum. Hún sýndi fram á að kynbundinn launamunur væri um 16% og hefði lítið sem ekkert breyst frá því sambærileg könnun var gerð fyrir 12 árum. Samkvæmt þessari könnun er munurinn sagður vera 15,7% nú en var 16% árið 1994.

Aðrar kannanir sem hafa verið gerðar hafa sýnt fram á mjög svipaðar niðurstöður. Í könnun sem HASLA gerði, Hagrannsóknastofnun samtaka launafólks í almannaþjónustu, á árinu 2004, hjá ríkisstofnunum, kom fram að karlmenn voru að jafnaði með 7% hærri mánaðarlaun en konur þegar tekið hafði verið tillit til starfsaldurs, aldurs, menntunar og vinnutíma. En ef heildarlaun voru borin saman miðað við sömu forsendur, voru karlar með 17% hærri laun en konur. Þessar tölur eru ívið hærri, og sums staðar talsvert hærri á hinum almenna vinnumarkaði. En þarna er hrópandi misrétti á ferðinni engu að síður hjá hinu opinbera.

Það má geta þess að í könnun félagsmálaráðuneytisins, eða Gallup-könnuninni, kom fram að launamunur almennt á milli þeirra sem hafa lægstu launin og hin hæstu hefur aukist verulega á undanförnum árum og hæstu dagvinnulaun með aukagreiðslum á klukkustund eru nærri 26 sinnum hærri en þau lægstu. Þannig að launamisréttið er orðið geigvænlegt á íslenskum vinnumarkaði. En við erum hér fyrst og fremst að ræða kynbundinn launamun og leiðir til að bæta þar úr.

Mig langar til að vekja athygli á blaðagrein sem birtist miðvikudaginn 25. október og er eftir Árna Stefán Jónsson, formann SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu almannaþjónustu. Grein hans er undir fyrirsögninni: Sögulegt tækifæri til að jafna launamun karla og kvenna. Þar vísar hann í könnun HASLA, Hagrannsóknastofnunar samtaka launafólks í almannaþjónustu, frá árinu 2004, sem ég vék að, og kjarasamninga sem gerðir voru í kjölfarið þar sem samið var um að ráðast gegn kynbundnu launamisrétti. Og nú þessa dagana sé tíðinda að vænta.

Það var settur niður starfshópur sem átti að stýra þessu verkefni og ég leyfi mér að vitna í grein Árna Stefáns Jónssonar, en hann segir, með leyfi forseta:

„Þessa dagana er forstöðumönnum ríkisstofnana að berast bréf og annað efni frá starfshópnum þar sem kemur fram hvernig eigi að vinna að verkefninu. Þeir eiga því næsta leik sem felst í að taka saman umbeðnar upplýsingar um starfsmenn viðkomandi stofnunar sem eru félagsmenn í SFR.“

Ég nefni hér dæmi um tilraun til að taka af alvöru á þessu máli. En þarna er einn hængur á og það er launaleyndin. Það var samdóma álit allra þeirra sem stóðu að umræddri könnun HASLA að hún væri sennilega eitt alvarlegasta meinið sem við væri að glíma. Launaleyndin. Því í ljósi, eða skjóli hennar öllu heldur, þrífst misréttið. Samkvæmt upplýsingalögum á að upplýsa um öll föst launakjör hjá hinu opinbera. Það er beinlínis lagaskylda að gera það. Lagaskylda sem ekki er framfylgt. Ég hef verið að hlusta á yfirlýsingar ráðamanna undanfarna daga, alvöruþrungnar yfirlýsingar þeirra um að nú þurfi að gera eitthvað róttækt í málinu. Og þá segi ég: Það fyrsta sem menn eiga að gera er að aflétta launaleyndinni. Að aflétta launaleyndinni og fara að lögum í því efni. En við viljum ganga lengra.

Í þessu frumvarpi er mjög róttæk tillaga í 2. gr. um breytingar því þar er gert ráð fyrir því að Jafnréttisstofa geti krafið opinberar stofnanir, sveitarfélög og atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði, svo og félagasamtök um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna hennar og athugunar á einstökum málum. Þarna er sem sagt verið að opna leið fyrir Jafnréttisstofu til þess að fá upplýsingar um launakjörin, ekki bara hjá hinu opinbera, heldur á almennum vinnumarkaði einnig.

Ég vek einnig athygli á 6. gr. lagafrumvarpsins. Þar segir á þá leið, að launamanni sé hvenær sem er heimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um laun og önnur starfskjör sín. Þetta er grundvallaratriði vegna þess að það tíðkast hjá sumum fyrirtækjum, og reyndar opinberum stofnunum hygg ég einnig, að fólki sé beinlínis meinað að upplýsa um launakjör sín. Þetta er afleitt. Ég tel það vera hreint mannréttindabrot að slík kvöð sé sett á fólk. Ég ítreka að í skjóli leyndarinnar, í skjóli myrkursins þrífst misréttið. Þetta frumvarp gengur út á þetta, a.m.k. að verulegu leyti. Þar er einnig önnur ákvæði að finna sem hefur prýðilega verið gerð grein fyrir. En að meginuppistöðu til gengur frumvarpið út á það að aflétta launaleyndinni. Það tel ég vera grundvallaratriði til þess að útrýma, ekki laga, ekki bæta, heldur til að útrýma kynbundnum launamun.