133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að spyrja hv. þingmann, framsögumann þessa máls, aftur hvað hún ætlar að gera. Ég var nefnilega einu sinni í þeirri stöðu að vera framkvæmdastjóri fyrirtækis. Þar var ekki launaleynd en þar voru menn aldrei sammála um hvað ætti að leggja til grundvallar.

Þeir sem voru duglegir vildu að sjálfsögðu fá borgað fyrir það. Þeir sem sköffuðu tvöfalt meira, unnu tvöfalt hraðar, vildu fá borgað fyrir það. Þeir sem höfðu reynsluna vildu fá borgað fyrir reynsluna. Þeir höfðu starfað hjá fyrirtækinu í áratugi og vildu fá borgað fyrir það. Þeir sem höfðu menntun sögðu: Við viljum fá borgað fyrir menntunina. Svo voru sumir starfsmenn rosalega snjallir, fundu lausn á öllum vanda, (Gripið fram í.) og þurftu aldrei neina verkstjórn. Þeir leystu allan vanda sjálfir. Þeir vildu fá borgað fyrir það.

Starfsmenn voru ekki sammála um það innbyrðis hvað ætti að leggja til grundvallar. Það að upplýsa um öll laun í fyrirtækjunum gæti því valdið gífurlegum óróa innan þeirra, milli fólks af sama kyni. Þessu hefur hv. þingmaður ekki svarað. Hvernig ætla menn að ráða við það þegar einn starfsmaður segir: Ég á að fá hærri laun af því ég er duglegur. Annar segir: Ég á að fá hærri laun af því ég er með reynslu. Og þriðji segir: Ég á að fá hærri laun af því ég er svo trúr fyrirtækinu og mæti alltaf á réttum tíma. Það yrði allt upp í loft ef launin yrðu upplýst, ekki vegna þess að fyrirtækið vilji það heldur vegna þess að starfsmennirnir væru ekki sammála um hvað eigi að leggja til grundvallar.