133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:27]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður verður að átta sig á því að hér er ekki verið að leggja til að launatölur hvers einasta starfsmanna í öllum fyrirtækjum verði birtar opinberlega með mynd af starfsmanni. Það er eingöngu lagt til að starfsmaðurinn eigi þann rétt, lagalega varinn, að geta upplýst um sín laun.

Það stendur ekki í launatöxtum opinberra fyrirtækja hvaða starfsmenn viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar séu nákvæmlega í hvaða launataxta. Hv. þingmaður er kominn út á mjög hálan ís og hálfgerðar villigötur þegar hann, í einhverju þráhyggjukasti, vill ræða um hvernig eigi að launa fólki fyrir dugnað, snilligáfu, reynslu, menntun eða trúmennsku.

Nú vil ég bara segja við hv. þingmann: Ef kenning hv. þingmanns stenst þá ætti raunin að vera sú að öll sú yfirborgun sem tíðkast núna, þ.e. að karlmenn eru með 65% hærri atvinnutekjur en konur, sé vegna þess að karlmenn séu í 65% tilvika duglegir, með reynslu og þeim sé hyglað út á snilligáfu, vegna menntunar eða trúmennsku. Ég segi við hv. þingmann: Þarna er eitthvað að og eitthvað sem þarf að leiðrétta því konur eru jafnsnjallar og karlar, jafntrúar og jafnduglegar og karlar. Misréttið sem er við lýði úti í samfélaginu núna getur ekki verið vegna þess að menn heimili yfirborganir út af dugnaði, snilligáfu eða trúmennsku. Það getur bara ekki verið.

Ef það er svo skulum við leiða það í ljós með því að aflétta leyndinni og gefa starfsmanninum heimild og rétt til að segja frá því sem hann hefur í laun.