133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef ég er dottinn í eitthvert þráhyggjukast en mér finnst sú athugasemd ekkert sérstaklega málefnaleg. Því miður. Ég benti á ákveðinn vanda sem felst í að upplýsa um laun, í því að fólk leggur mismunandi mælikvarða á hvaða laun það sjálft á að hafa. Það leggur mismunandi áherslur á hvaða eiginleika á að verðlauna. Ég benti á það.

Ég talaði aldrei um karl eða konu. Aldrei. Ég meira að segja tók það fram áðan í ræðu minni að mér þætti það dapurleg niðurstaða sem þessi launakönnun hefði sýnt. Mér þykir mjög slæmt að ekki miði betur í launajafnrétti en reyndin sýnir. Mér þykir sérstaklega slæmt að konur fái ekki framgang. Það finnst mér eiginlega verst. Það er mjög athyglisvert. En það næst ekki fram með þessu frumvarpi, ekki framgangurinn. Hann næst ekki fram. Það er bara verið að bera saman sambærilegar stöður, sem segir eiginlega ekki neitt.

Mér finnst það slæmt að því skuli tekið illa þegar maður bendir á ákveðin vandamál í raunverulegum rekstri. Ég hef reynslu af þessu, að greiða laun og ákveða laun. Það er ekki öfundsvert, alls ekki, þegar fólk leggur mismunandi mælikvarða á hvaða laun það eigi skilið. Ég benti á þetta út frá minni eigin reynslu. Ég held að það sé ekkert þráhyggjukast þótt ég bendi á að ég hef lent í þessu sjálfur. Ég vildi greiða réttlát laun. Það vildi svo til að þetta voru allt saman konur, sem ekki voru sammála um launin.

Ég hef aldrei sagt að karlmenn væru eitthvað duglegri eða snjallari. Það eru orð hv. þingmanns sem hún leggur mér í munn. Ég tel að konur séu ekkert síður snjallar, duglegar og reyndar en karlar. Ég gat um það í fyrri ræðu minni. Mér finnst þessi málefnafátækt ótrúleg og það að núa mér því um nasir að ég sé í (Forseti hringir.) einhverju þráhyggjukasti.