133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverða ræðu og get tekið undir ýmislegt sem fram kom þar og málið er ákaflega vel rökstutt.

Mig langaði að beina einni spurningu til hv. þingmanns. Hún varðar það hvort þetta fyrirkomulag hafi að einhverju leyti slævt umrædd samtök, Samtök iðnaðarins, í baráttu sinni fyrir ýmsum málum sem varða iðnaðinn, t.d. hækkun raforkuverðs eða betri og bættri starfsaðstöðu skipasmíðaiðnaðarins þannig að hann verði meira í samræmi við það sem gerist í Evrópu. Og hvort einmitt þetta samkrull og innheimta ríkisins geti þá leitt til þess og hafi jafnvel leitt til þess að þetta hafi slævt samtökin í baráttu sinni fyrir bættum og betri reglum til handa iðnaðinum.