133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:33]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þótt einn félagsmaður sem neyddur er til að greiða til BSRB væri á móti, t.d. stefnu samtakanna í einkavæðingarmálum, þá dugir það ekki þeim manni að þurfa að borga áróður gegn sinni eigin skoðun.

Sama á við í Samtökum iðnaðarins. Ef einn félagsmaður er á móti því að ganga inn í Evrópusambandið, ég geri reyndar ráð fyrir að þeir séu miklu fleiri, þá þarf hann að fjármagna áróður sem er gegn hans eigin stefnu og lífsviðhorfum.

Nú vill svo til að hv. þingmaður er á móti því að ganga inn í Evrópusambandið. Hann hlýtur því að vita hvernig honum liði ef hann ætti að borga þann áróður.

Ég er að gagnrýna þetta, að menn eru neyddir til að borga áróður gegn eigin sannfæringu. Þótt hv. þingmaður hafi það á tilfinningunni að breið samstaða sé um þetta í BSRB þá er það alls ekki víst. Lýðræðinu er nú einu sinni þannig farið, í þeirri verkalýðshreyfingu eins og í flestum, að raddir hinna einstöku félagsmanna, lengst niðri í rótinni, komast ekki til skila.