133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að flestar þær raddir komist til skila. Ég ítreka að það er rétt hjá hv. þingmanni að ef um er að ræða skylduaðild þá þurfa menn að vanda sig í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Ég ítreka, að þau samtök sem ég er í forsvari fyrir gera það. Það eru mörg hitamál sem brenna á samfélaginu og hafa gert á undanförnum árum sem þessi samtök hafa sneitt hjá og hafa frekar talið eiga erindi á hinn flokkspólitíska vettvang.

Við ræðum hér á eftir um málefni Ríkisútvarpsins sem menn vilja gera að hlutafélagi. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er í hópi þeirra sem ætla að leggja nefskatt á þjóðina, lögþvingaðan nefskatt, á fyrirtæki sem ég er ekkert viss um að allir komi til með að skrifa upp á. Ég er ekki viss um að mjög rík og breið samstaða sé um nefskatt Sjálfstæðisflokksins fyrir Ríkisútvarpið ohf. En það er umræða sem bíður betri tíma. Ég vildi hins vegar gera grein fyrir almennum sjónarmiðum til málsins sem við höfum haft til umræðu.