133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur nú verið ljóst um nokkurt skeið að ríkið hefði áhuga á að kaupa sveitarfélögin út úr Landsvirkjun þannig að fyrirtækið væri einvörðungu á hendi ríkisins. Það þarf því ekki að koma á óvart að viðræður hafi verið í gangi sem stefndu að því að ná niðurstöðu.

Það er rétt að bíða með að fella dóma yfir samningnum þar til hann hefur verið lagður fram og kynntur. Við höfum getað áttað okkur á einstökum atriðum hans. En ég held að menn þurfi að hafa ákveðin atriði í huga.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir í þingskjölum að seljendur í þessu máli hafa ákaflega lítið lagt fram til þess eignarhlutar sem þau eru að taka út úr fyrirtækinu núna. Óverulegar fjárhæðir hafa sveitarfélögin á Akureyri og Reykjavík lagt fram en þau eru að selja verðmætisaukninguna í fyrirtækinu sem orðið hefur til m.a. vegna einokunarstöðu fyrirtækisins um allt land, líka í sveitarfélögunum utan þessara tveggja.

Ef þessi tvö sveitarfélög geta selt þessa eign fyrir svona miklar fjárhæðir þá er ríkið í raun að búa til mismun á milli þessara tveggja sveitarfélaga og annarra sveitarfélaga. Það verður að skoða málið í því ljósi að ríkisvaldið geti ekki verið að skekkja myndina milli sveitarfélaga innbyrðis með þessu móti.

Í öðru lagi þurfa menn að hafa í huga að Landsvirkjun er ákaflega stórt fyrirtæki á ófullkomnum samkeppnismarkaði og hefur mikið af réttindum. Ef til þess kemur, sem greinilega er ekki útilokað í samningnum, að fyrirtækið verði selt úr höndum ríkisins, þá eru mörg helstu réttindi til virkjunar í landinu komin í eigu annarra aðila. Við sjáum þá að samkeppnisstaða annarra fyrirtækja við hið einkavædda fyrirtæki verður ákaflega erfitt.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni, virðulegi forseti, að ég tel að það eigi ekki á næstu árum að minnsta kosti, (Forseti hringir.) að huga að sölu Landsvirkjunar. (KolH: En hvað segir Framsóknarflokkurinn?)