133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarbætur.

104. mál
[13:56]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur lýtur að samræmingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar og umönnunargreiðslna til framfæranda fatlaðra og langveikra barna, samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, hins vegar.

Eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra síðasta sumar hef ég látið fara mjög vel yfir þessi mál. Eftir þá yfirferð er ég þeirrar skoðunar að þessar greiðslur séu samrýmanlegar í eðli sínu. Tilgangur þeirra er ekki sá sami þar sem greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ætlað að mæta tekjumissi foreldra er þeir annast barn sitt í fæðingarorlofi, en umönnunargreiðslunum er ætlað að mæta útgjöldum fjölskyldna sem rekja má til veikinda eða fötlunar barna.

Ég svara því síðari spurningu hv. þingmanns játandi. Ég mun beita mér fyrir því að gerðar verði breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á yfirstandandi þingi í þá veru að þessar greiðslur fari saman.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að með þeim orðum hafi ég svarað þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín og hef ekki fleiri orð um málið að sinni.