133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarbætur.

104. mál
[13:57]
Hlusta

Sigríður Ingvarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á vef Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að tímabil umönnunargreiðslna geti verið frá lokum greiðslna í fæðingarorlofi til 18 ára aldurs og heimilt sé að hefja greiðslur fyrr. Velur þá foreldrið umönnunargreiðslur í stað greiðslna í fæðingarorlofi sem falla niður.

Það að hefja ekki greiðslur umönnunarbóta fyrr en að lokum greiðslna fæðingarorlofs eða að skikka foreldra til að velja á milli umönnunargreiðslna eða greiðslna vegna fæðingarorlofs, er kolrangt og velferðarþjóðfélagi okkar ekki sæmandi. Því fagna ég svari hæstv. félagsmálaráðherra. Samfélagið á að koma til móts við foreldri ef um veikindi barna er að ræða. Ekki er ásættanlegt að efnahagur foreldra ráði hvort þeir geti sinnt foreldrahlutverkinu ef um veikindi barna er að ræða eða ekki. Nægilegir eru erfiðleikar fólks samt.