133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

204. mál
[14:06]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta mál á sér nokkra forsögu eins og hv. þm. rakti hér áðan. Nefnd var skipuð í febrúar 2004 á grundvelli þingsályktunar Alþingis þar sem þingflokkar og helstu samtök aðila vinnumarkaðarins áttu fulltrúa. Nefndin var sammála um að stjórnvöld stæðu að fimm ára verkefni til að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði og að það hæfist á skipun sjö manna verkefnisstjórnar.

Það er ástæða til að nefna það í upphafi svars míns að atvinnuþátttaka miðaldra og eldra fólks á Íslandi hefur sérstöðu í vestrænum samanburði og er mun meiri hér en tíðkast víða í nágrannalöndunum. Enn fremur er atvinnuleysi meðal þessa aldurshóps ekki meira en annarra aldurshópa hér á landi og tekur minni árstíðasveiflum en almennt gerist. Þetta tel ég vera þýðingarmikið og við eigum að viðhalda þeirri stöðu.

Í samræmi við tillögu þverpólitísku nefndarinnar skipaði félagsmálaráðherra verkefnisstjórn í apríl 2005. Verkefnisstjórnin hefur fengið á fund sinn ýmsa sérfræðinga á þessu sviði og leitað eftir áliti þeirra á nauðsynlegum aðgerðum. Á grundvelli þess sem fram hefur komið á þeim fundum og annarra upplýsinga sem aflað hefur verið innan lands og utan hefur verkefnisstjórnin sett sér verkáætlun. Verkáætlunin tekur mið af mismunandi þörfum miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði og lögð verður áhersla á þrjú atriði, fræðslustarf, rannsóknir og áhrif á viðhorf.

Verkefnisstjórnin telur mikilvægt að stuðla að umræðu um gildi eldri starfsmanna fyrir fyrirtækin og atvinnulífið í heild og hefur ákveðið að beita sér fyrir fundaröð um þetta efni og var fyrsti fundurinn haldinn þann 17. október sl. Á þessum fundum verður leitast við að fá til samræðu alla þá aðila sem láta sig málefni vinnumarkaðarins varða, t.d. atvinnurekendur vinnumiðlara, rannsakendur, stéttarfélög sem og síðast en ekki síst hinn almenna launamann. Þetta er vænleg leið til þess að koma í veg fyrir að fordómar í garð þessa hóps grafi um sig.

Þetta er í samræmi við það hlutverk verkefnisstjórnarinnar að stuðla að jákvæðri umræðu hér á landi um þennan aldurshóp á vinnumarkaði, bæta ímynd hans og móta farveg fyrir viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu. Til að byrja með verður megináhersla lögð á aldurshópinn 50–65 ára í vinnu verkefnisstjórnarinnar. Síðar verður lögð áhersla á einstaklinga sem teljast til þess hóps sem farinn er að nálgast starfslok.

Verkefnisstjórnin hefur komið á samstarfi Háskólans á Bifröst og þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum vegna verkefna sem tengjast brotthvarfi varnarliðsins. Áætlað er að opna vefsíðu verkefnisstjórnarinnar þar sem birtar verða ýmsar upplýsingar, t.d. niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna sem fjalla sérstaklega um stöðu þessa hóps. Jafnframt er stefnt að því að veita árlega viðurkenningu aðila eða aðilum sem hafa vakið athygli á gildi miðaldra og eldra fólks fyrir atvinnulífið eða styrkt stöðu þess á vinnumarkaði. Þá eru ýmis verkefni ótalin. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin starfi til ársins 2010.

Hæstv. forseti. Gert er ráð fyrir að kostnaður við störf og verkefni verkefnisstjórnarinnar nemi um 5 millj. kr. árlega. Starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytisins fær um 60 millj. kr. árlega á fjárlögum. Árið 2005 ákvað starfsmenntaráð að tveir flokkar verkefna er varða sérstaklega stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði hljóti árlega styrki úr sjóðnum. Þessir flokkar verkefna bera yfirskriftina „Tækifæri miðaldra og eldra fólks til starfsmenntunar“ annars vegar og hins vegar „Yfirfærsla þekkingar og reynslu innan fyrirtækja og stofnana“. Þar er m.a. lögð áhersla á að menntun, þekking og færni þeirra sem öðlast hafa mikla starfsreynslu nýtist innan atvinnulífsins og þar með stuðlað að áframhaldandi eftirspurn eftir þeim hópi á vinnumarkaði. Enn fremur þykir mikilvægt að í boði sé nám og þjálfun fyrir þennan aldurshóp auk þess sem einstaklingunum innan hans verði gert kleift að viðhalda þekkingu sinni í samræmi við kröfur vinnumarkaðarins hverju sinni.

Hv. þingmaður spyr svo í þriðja lagi hvort ég hafi hug á að beita mér fyrir að sett verði rammalöggjöf gegn mismunun vegna aldurs í starfi og á vinnumarkaði. Ég geri ráð fyrir því að þessi spurning tengist hugsanlegri innleiðingu á efni Evróputilskipunar um almennan ramma gegn mismunun í starfi og á vinnumarkaði sem m.a. fjallar um bann við mismunun á grundvelli aldurs.

Eins og áður hefur komið fram hér á Alþingi, hæstv. forseti, hafa stjórnvöld lýst yfir vilja sínum til að endurspegla efni tilskipunarinnar í löggjöf hér á landi. Nefnd hefur verið skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og fulltrúum stjórnvalda til að kanna á hvern hátt þetta verði best gert. Nefndin hefur ekki skilað mér tillögum, ég tel því ekki tímabært að tjá mig frekar um það efni en vil endurtaka það sem áður hefur verið sagt að fullur vilji stendur til þess að efni tilskipunarinnar gildi á Íslandi með sama hætti og í öðrum aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.