133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

204. mál
[14:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið sammála um að bæta þurfi stöðu eldra fólks á vinnumarkaði. En ég vil líka benda á að mjög margt eldra fólk sem er á vinnumarkaði í dag neyðist til að vera þar en vildi kannski frekar fá að njóta ævikvöldsins, en vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar og aðbúnaðar í málefnum aldraðra neyðist fólk til að vinna miklu meira en það ella hefði þurft að gera. Við skulum hafa það í huga.

Annað sem ég vil benda á í sambandi við möguleika eldra fólks á vinnumarkaði eru lögin sem við samþykktum í vor en hefðum aldrei átt að gera, þ.e. lögin um frjálst flæði vinnuafls frá útlöndum. Þetta vinnuafl hefur flætt inn í landið í stríðum straumum undanfarna mánuði og keppir að sjálfsögðu við eldra fólk um störf. Ég veit að eldra fólk hefur átt í erfiðleikum með að finna vinnu einmitt vegna þess að útlendingar hafa farið í þau störf sem hefðu kannski ella fallið þeim í hlut.