133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

204. mál
[14:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin og þá yfirferð hans um stöðu málsins. Af svörum ráðherra má ráða að það er nokkuð farið að vinna í þeirri verkefnaáætlun, tillögum og hugmyndum sem nefndin setti fram á árinu 2004 og ég fagna því. Allt er þetta mjög jákvætt sem er byrjað að gera.

Ég vil þó lýsa óánægju minni með eitt atriði, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt. Það var lögð áhersla á að sett yrði sérstakt fjármagn inn í Starfsmenntasjóð til þess að ráðast í þessi verkefni og að það fjármagn yrði ekki tekið af því takmarkaða fé sem í sjóðnum er því þá er auðvitað verið að taka frá öðrum. Það eru mörg verkefni sem heyra undir Starfsmenntasjóð og hann getur ekki sinnt nærri öllum þeim verkefnum sem hann hefur. Þess vegna var lögð áhersla á viðbótarfjármagn en ég skildi hæstv. ráðherra þannig að þetta væri tekið af því fjármagni sem fyrir væri í sjóðnum en ekki væri um neinar viðbætur að ræða.

Ég spyr hæstv. ráðherra um þetta og spyr hann varðandi fjárlög næsta árs hvort ekki sé þá gert ráð fyrir því að bætt verði sérstaklega inn í Starfsmenntasjóð til þess að hægt sé að halda vel utan um þetta verkefni og ná einhverjum árangri án þess að verið sé að taka fjármagn af öðrum.

Síðan vil ég fagna því að ráðherra lýsir vilja — sínum vilja og þá vilja ríkisstjórnarinnar væntanlega — til þess að innleiða þessa tilskipun Evrópusambandsins um jafna meðhöndlun í atvinnu og starfi og bann við mismunun vegna aldurs, vegna þess að nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins, m.a. vegna þess að fulltrúar fjármálaráðuneytisins og vinnuveitenda lögðust gegn því að sett yrðu nokkur lög um þetta efni eða að þessi tilskipun yrði innleidd. (Forseti hringir.) Þess vegna fagna ég því ef hæstv. ráðherra beitir sér fyrir því og ef það er vilji fyrir því í ríkisstjórn að koma með tilskipunina inn í þingið og innleiða hana.