133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

204. mál
[14:16]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að svara því sem ég hef upplýsingar um núna. Í fyrsta lagi var hv. þm. Jón Gunnarsson að velta fyrir sér hvað telst vera miðaldra og hvað eldra fólk á vinnumarkaði. Ég er ekki með þessa skilgreiningu í texta við höndina en ég geri ráð fyrir að við gætum hugsanlega báðir, a.m.k. ég bráðum, farið að teljast miðaldra en í svari mínu áðan talaði ég um aldurshópinn 50–65 ára og síðan eldri þannig að ég geri ráð fyrir að það sé skilgreiningin.

Það er alveg rétt eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir dró ályktun af að töluverð vinna er hafin í þessu verkefni og það er auðvitað mjög vel. Ég veit að það er mikill áhugi hjá verkefnisstjórninni sem fer með þetta mál þannig að ég vænti þess að við eigum eftir að sjá góðan árangur af því starfi í þágu þess aldurshóps á vinnumarkaði sem við fjöllum hér um.