133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:27]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í svari hæstv. ráðherra að hann sagði að hér væru 990 starfsmenn á vegum starfsmannaleigna og hann sagði að hér væru fjölmargir iðnaðarmenn, trésmiðir, píparar, málmsmiðir, rafvirkjar o.s.frv. en svo sagði hæstv. ráðherra að íslensk yfirvöld spyrðu ekki um prófskírteini þessara manna.

Ég velti fyrir mér hvort aðrar reglur gildi um útlendinga sem hér starfa sem iðnaðarmenn, réttindamenn, en um Íslendinga. Ég veit ekki betur en að íslensk stjórnvöld gangi eftir því að íslenskir iðnaðarmenn sýni fram á að þeir hafi réttindi til að starfa í iðngrein sinni og selja sig út sem slíkir. Gilda aðrar reglur um þá útlendinga sem koma á vegum starfsmannaleigna? Getur verið að íslensk stjórnvöld kanni ekki hvort þeir aðilar sem koma hingað sem trésmiðir, rafvirkjar eða einhverjir aðrir iðnaðarmenn hafi réttindi til að kalla sig þeim starfsheitum sem þarna um ræðir? Það getur vel verið að ég hafi misskilið hæstv. ráðherra og helst vona ég að ég hafi misskilið hann.