133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra ágæt svör. Ég minni á að þessari umræðu var ætlað að vekja athygli á baráttu verkalýðsfélaganna við starfsmannaleigur með hag launafólks í huga. Hér kom fram að það væru 990 starfsmenn á vegum starfsmannaleigna. Mér finnst það ótrúlega lág tala miðað við þann mikla fjölda sem maður verður var við af erlendu vinnuafli.

Staðan er einfaldlega þannig núna að stéttarfélög vita í raun ekki hvort erlent vinnuafl er ráðið í gegnum starfsmannaleigu eða með beinu ráðningarsambandi, einungis vegna þess að þau hafa ekkert í höndunum til að geta staðfest það.

Jafnframt hef ég hér eftir, með leyfi forseta, einum verkalýðsforingja á Vesturlandi:

„Það flæðir inn í landið erlent vinnuafl og að mínu mati algerlega eftirlitslaust. Það var svartur dagur hjá íslensku launafólki þegar Alþingi samþykkti að aflétta takmörkunum af frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkjum EES.“

Frú forseti. Við þurfum að hafa þetta í huga en það sem ég var að reyna að fá fram í þessari umræðu, eins og fram kom hjá hæstv. félagsmálaráðherra, þá er ekki gengið eftir því að fá prófskírteini. Það er akkúrat svarið sem ég vildi fá. Þetta var það sem mig grunaði. Inn í landið flæða á vegum starfsmannaleigna verkamenn eða iðnaðarmenn sem hafa í raun ekki löggilda pappíra til að sinna þeirri vinnu.

Á hverjum bitnar það í framtíðinni? Nú eru menn að vinna hér ýmis verk. Byggja hús o.s.frv. Ég held að menn ættu að kanna þetta betur. Er þetta vinnuafl hæft til að sinna þeim verkum sem það er ráðið til á Íslandi?