133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:39]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel ljóst að mikill vilji er til að efla sveitarstjórnarstigið með flutningi á verkefnum og tekjustofnum frá ríki til sveitarfélaga. Ég lýsi mig reiðubúinn til að beita mér í því máli.

Í könnun á viðhorfi sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til framtíðar íslenska sveitarstjórnarstigsins, sem Rannsóknamiðstöð Viðskiptaháskólans á Bifröst vann að beiðni félagsmálaráðuneytisins síðastliðið vor, kom sá vilji skýrt fram. Í könnuninni töldu þrír af hverjum fjórum þátttakendum æskilegt að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga og voru málefni aldraðra og fatlaðra oftast nefnd. Áhugi á áframhaldandi vinnu við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, einkum á sviði velferðarmála, kom einnig skýrt fram á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í september síðastliðnum.

Í tengslum við sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins var verkefnisstjórn m.a. falið að gera tillögur um hvaða verkefni unnt væri að færa frá ríki til sveitarfélaga með það að markmiði að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðarlaganna. Verkefnisstjórnin fjallaði um og gerði tillögur um skoðun á flutningi á málefnum fatlaðra, öldrunarþjónustu, heilsugæslu, heimahjúkrun, svæðisvinnumiðlun og atvinnuráðgjöf.

Jafnframt lagði verkefnisstjórnin til að kannað yrði hvort æskilegt og mögulegt væri að gera aðrar breytingar á verkaskiptingu hins opinbera, t.d. að sveitarfélögum væri gefinn kostur á að taka að sér rekstur framhaldsskóla með þjónustusamningum, auk þess sem unnið yrði að því að flytja opinber eftirlitsverkefni frá ríki til sveitarfélaga.

Bæði ríki og sveitarfélög hafa gengið út frá því að fækkun og stækkun sveitarfélaga sé forsenda þess að sveitarfélög geti tekið að sér aukin verkefni og sinnt þeim með faglegum og ábyrgum hætti. Þrátt fyrir fækkun sveitarfélaga á nýliðnu kjörtímabili sveitarstjórna, úr 105 í 79 sveitarfélög, hefur ekki náðst fram sú grundvallarbreyting á sveitarfélagaskipaninni sem að var stefnt. Hátt í helmingur sveitarfélaga er með færri en 500 íbúa og mörg sveitarfélög eru því enn veikburða, bæði hvað varðar fjárhagsgrundvöll og stjórnsýslu.

Ég tel að ríki og sveitarfélög séu sammála um að það þjóni engum tilgangi að flytja umfangsmikil verkefni til sveitarfélaga sem ekki hafa bolmagn til að taka við þeim. Til að verkefnaflutningur geti orðið að veruleika þurfum við í sameiningu, þ.e. ríkið og sveitarfélögin, að leita nýrra lausna.

Ég var viðstaddur afar málefnalegar umræður um þessi mál á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í september og hef átt frumkvæði að því að möguleikar á verkefnaflutningi verði til umræðu á næsta samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga. Ég tel ljóst að áherslan þar verði á velferðarmálin, þ.e. málefni fatlaðra og aldraðra. Þau verkefni falla mjög vel að þeim verkefnum sem sveitarfélögin annast í dag.

Önnur verkefni sem hv. fyrirspyrjandi nefnir í fyrirspurn sinni, þ.e. löggæslu og framhaldsskóla, tel ég ekki hafa sama hljómgrunn meðal sveitarstjórnarmanna. Því sé rétt að slá því einfaldlega föstu að þau séu ekki á dagskrá að sinni, hvað sem síðar verður.

Að mínu mati er ekki tímabært að hefja vinnu við endurskoðun á tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga með tilliti til verkefnaflutnings fyrr en ákvörðun um að hefja formlegar viðræður liggur fyrir. Ég bendi hins vegar á að tekjustofnanefnd skilaði vorið 2005 tillögum til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga og þeim tillögum hefur þegar verið hrundið í framkvæmd.

Jafnframt vil ég geta þess að fyrir lá mikil undirbúningsvinna varðandi mat á kostnaði árið 2001 þegar flutningur á þjónustu við fatlaðra til sveitarfélaganna var nánast orðinn að veruleika. Undanfarin missiri hefur geysilega mikil vinna verið lögð í það af hálfu félagsmálaráðuneytisins að leggja mat á stöðuna í þeim málaflokki í dag, að meta þörf fyrir aukna þjónustu og móta framtíðarsýn á því sviði. Ég tel að við getum byggt á þeirri vinnu þegar og ef kemur að því að ákveða hvaða tekjustofnar eigi að fylgja málaflokkum.

Ég vil undirstrika það í þessu samhengi að ég tel afar mikilvægt, ekki síst í ljósi reynslunnar, að þegar og ef ákveðið verður að hefja formlegar viðræður um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, þá verði samhliða fjallað um faglega og fjárhagslega þáttinn. Slík vinnubrögð eru í senn vönduð, skynsamleg og eðlileg.

Varðandi flutning á málefnum aldraðra þá er jafnframt stefnt að því að hefja skoðun á því hvort flytja beri málaflokkinn í heild til sveitarfélaga eða hvort æskilegt sé að flytja einhverja verkþætti sem nú er sinnt af sveitarfélögunum til ríkisins. Skilgreina þarf þá þjónustu sem hugsanlegt er að færa megi yfir og um leið tryggja að ekki dragi úr hagkvæmni þeirrar þjónustu sem ríkið veitir áfram.

Í áfangaáliti starfshóps sem skilaði skýrslu árið 2004 var t.d. bent á að erfitt sé að rjúfa tengslin á milli starfsemi minni sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila og heilsugæslu víða úti á landi. Í umræðu um flutning þessa málaflokks til sveitarfélaga tel ég jafnframt mikilvægt að hafa í huga að flestir eldri borgarar eru sem betur fer jafnheilbrigðir og yngra fólk og þess vegna ber að varast að hugsa um málaflokkinn sem heilbrigðismál.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka að á næsta samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga verður umræðan um verkefnaflutning í fyrirrúmi. Vilji sveitarstjórnarmanna skiptir (Forseti hringir.) vitaskuld meginmáli og verkefnin verða ekki flutt til sveitarfélaganna nema af þeirra hálfu liggi fyrir skýr vilji til að taka við þeim.