133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Verkaskipti milli ríkis og sveitarfélaga eru alls ekki skýr. Víða skarast verksvið þessara tveggja stjórnsýslustiga og nægir þar að nefna málefni aldraðra og málefni fatlaðra.

Mín reynsla er sú að þar sem verkefni ríkis og sveitarfélaga skarast þá sinni ríkið ekki sínu lögbundna hlutverki og sveitarfélögin þurfi að taka við boltanum og veita þá þjónustu sem þarf að veita. Sveitarfélögin og sveitarstjórnarmennirnir finna hvar þörfin er og á þeim brennur mest að sinna þjónustunni. Þar sem verkefni skarast þá gengur ríkið því miður yfirleitt á lagið og sveitarfélögin þurfa að leggja til meiri fjármuni en þeim ber, meiri vinnu og meira afl en ríkið dregur sig smátt og smátt til baka.

Hvað varðar tekjuskiptinguna þá hlýtur að vera komið að því að ræða í fullri alvöru um að sveitarfélögin fái hlutdeild í veltusköttum og þau séu ekki eingöngu háð launum og launatengdum tekjum. Það væri gott að heyra frá hæstv. ráðherra hvort til greina komi að hans mati að sveitarfélögin fái hlut í veltusköttum.