133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vaxtarsamningar.

135. mál
[14:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra um gerð vaxtarsamnings fyrir Suðurnes. Tilefnið að þessari fyrirspurn er aðalfundur sambandsins sem haldinn var í Vogunum 9. september sl. en þar var mikil umræða meðal sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum um nýgerða menningarsamninga og síðan vaxtarsamninga sem sveitarfélög víða um land eða samtök þeirra höfðu verið að gera við ríkið hvert á sínu svæði.

Á aðalfundinum var samþykkt ályktun þar sem hvatt var til þess að ráðist yrði í viðræður við iðnaðarráðuneytið um gerð vaxtarsamnings við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Slíkir samningar hafa í mjög auknum mæli verið gerðir við aðra landshluta og reynslan af þeim hefur yfirleitt verið góð. Gerð svona samnings hefur haft í för með sér að farið er yfir svæðin kerfisbundið. Menn skoða hvaða styrkleikar það eru sem eru á hverju svæði og hvaða tækifæri þeir gefa. Einnig fara menn yfir veikleika svæðisins og hvar þarf að bæta í til að svæðin geti haldið sínum hlut og sérstaklega er hugað að tækifærum á hverju svæði, tækifærum bæði sértækum og almennum til að byggja upp sterkara atvinnulíf og nýsköpun á hverju svæði fyrir sig. Samningarnir hafa yfirleitt tryggt fjárhagslegan grundvöll atvinnuþróunarstarfs á þeim svæðum sem um ræðir og yfirleitt hafa komið mun meiri fjármunir inn á svæðin í gegnum vaxtarsamninga en í gegnum hefðbundna samninga milli sveitarfélaga eða sambanda þeirra og Byggðastofnunar. Má því segja að vaxtarsamningarnir séu hið nýja form að atvinnuþróun og atvinnustyrkingu í byggðum landsins og eðlilegt að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum horfi til þess hvort ekki komi til greina að slíkur samningur verði gerður við Suðurnes. Fundurinn lagði áherslu á það að stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum mundi hefja viðræður við ráðuneytið með það í huga að gera samning.

Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum lýstu þeirri skoðun sinni og þeim vilja sínum að það tæki skamman tíma að gera svona samning en við vitum að ef samningurinn á að vera vandaður og hægt á að vera að ná inn í hann fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu þá tekur það ákveðinn tíma að fara inn í svona vinnu.

Nýbúið er að skrifa undir vaxtarsamning við Suðurland og Vestmannaeyjar og sá samningur er frábrugðinn þeim samningum öðrum sem ég hef séð að því leytinu til að meira er um það að fyrirtæki á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum og stofnanir sveitarfélaganna komi að samningnum heldur en við höfum séð áður. Það er styrkleikamerki og það er merki sem gefur til kynna að þessir samningar virðast vera að gera sig.

Ég ætla ekki að lesa upp spurningarnar sem ég sendi hæstv. ráðherra eða lagði inn en þær snúast um hvað þetta taki langan tíma, hvort það sé vilji til að gera þetta, hvaða samningar séu í gildi og hvaða fjármunir séu í samningunum.