133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vaxtarsamningar.

135. mál
[15:05]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Geri vaxtarsamningarnir það gagn sem þeim er ætlað má örugglega hafa af þeim heilmikil not fyrir svæðin. Skýrslugerðin sem liggur þeim til grundvallar er nokkuð góð og hún dregur upp mjög afdráttarlausa mynd af stöðu á hverju svæði og maður bindur óneitanlega nokkrar vonir við að þeir skili afli og krafti inn á svæðin þar sem þeir hafa verið gerðir — ég hef fylgst með því eins og í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi þar sem þessir samningar hafa verið gerðir — þó að það gæti nú töluverðrar vantrúar hjá mörgum t.d. sveitarstjórnarmönnum á því að þetta séu annað en pólitískar skrautsýningar, þetta skili einhverju, en við verðum að trúa því besta.

Við erum að ræða um vaxtarsamning við Suðurnesin. Mér finnst einboðið að gera einnig slíkan samning við Suðurnesin eins og þau svæði sem hafa verið nefnd hér í dag. Suðurnesin hafa verið að ganga í gegnum miklar breytingar, brottför hersins o.s.frv. sem hefur að sjálfsögðu breytt samfélaginu þar verulega og það væri mikið gagn að vaxtarsamningi fyrir Suðurnesin, án nokkurs vafa.