133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál
[15:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Hann beinir þeirri spurningu til mín hvort ég hyggist sem iðnaðarráðherra beita mér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns, það er samþykkt stefnumið á flokksþingi Framsóknarflokksins að vinna að því að útræðisréttur strandjarða verði virtur. Um er að ræða afar forn réttindi jarðareigenda sem eiga sér m.a. stoð í rekabálki Jónsbókar og veiðitilskipun frá árinu 1849. Hins vegar rekast þessi réttindi á sjónarmið um nýtingu og verndun fiskstofna og það er nauðsynlegt að horfa til þess líka.

Það má ekki gleyma því að miklar breytingar hafa orðið á heimildum eigenda fasteigna til nýtingar á eignum sínum með breyttum lifnaðarháttum og breyttu atvinnulífi. Ýmis lagaákvæði takmarka rétt fasteignareigenda til notkunar á landi sínu og koma þar til sjónarmið, m.a. skipulag, umhverfisvernd, verndun fugla og dýra og fleira. Þessar takmarkanir þykja réttlætanlegar í nútímaþjóðfélagi út frá sjónarmiðum um verndun og skynsamlega nýtingu. Ákvæði sem þessi geta vissulega orðið til þess að bótaréttur stofnast en slíkt verður að meta í hverju tilviki.

Kunnugt er að uppi hafa verið deildar meiningar meðal lögfræðinga um það hvort með lögum um stjórn fiskveiða hafi verið gengið of nærri stjórnarskrárvörðum eignar- og atvinnuréttindum þeirra bænda sem land eiga að sjó. Einnig liggur fyrir að eigendur sjávarjarða hafa af þessu tilefni stofnað samtök sem hafa þann tilgang m.a. að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný.

Mér vitanlega hefur ekki reynt á túlkun þessa beinlínis fyrir dómstólum en Hæstiréttur hefur með dómi frá árinu 2004 staðfest heimild löggjafans til að vernda nytjastofna í fiskveiðilandhelginni og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra með því að banna landeigendum veiðar úr þeim innan netlaga sem utan, nema með sérstöku leyfi.

Verndun og nýting fiskstofna er hins vegar málefni sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið. Af þeirri ástæðu, í fjölskipaðri ríkisstjórn, er ekki unnið að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í iðnaðarráðuneytinu.