133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál
[15:20]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er forn réttur sem ríkið hefur tekið bótalaust af eigendum jarðanna. Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu.

Þetta minnir mig að hluta til á það sem gerist í framkvæmd ríkisins á þjóðlendulögunum. Þar fer ríkið líka fram í krafti þess að vera hinn sterki gegn þeim sem erfitt eiga með að verja sig. Ég fullyrði t.d. varðandi þjóðlendulögin að þeir þingmenn sem samþykktu þau á sínum tíma á hinu háa Alþingi gerðu sér aldrei grein fyrir því að ríkið mundi fara fram með því offorsi sem ríkið hefur gert og taka eignarlönd og lönd sem menn hafa þinglýsta pappíra fyrir og þinglýsta kaupsamninga af mönnum bótalaust, eins og gert var með útræðisrétt strandjarða.