133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Frá síðustu áramótum hafa allir kaupendur raforku haft frelsi til að velja raforkusala. Hvað varðar framleiðslu og sölu á raforku er það svo að orkusölum er heimilt að veita afslætti til gróðurhúsabænda eða annarra ef fyrirtækin sjá sér í hag í því og gæta þess að fara ekki á svig við samkeppnisreglur.

Hins vegar leiddu breytingar á skipulagi raforkumála til þess að óheimilt er að taka mishátt gjald fyrir flutning og dreifingu raforku eftir því til hvers orkan er notuð. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við setningu gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu sé tekið tillit til þess að orkunotkun gróðurhúsabænda er talsverð og að hluta til er hægt að haga henni þannig að hún falli utan álagstoppa. Slík gjaldskrárákvæði byggja á því að þeir notendur sem eru eins settir varðandi orkunotkun og -nýtingu njóti sömu kjara en ekki er gert ráð fyrir sérstökum afsláttarkjörum til einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa.

Eins og fram kom í svari þáverandi iðnaðarráðherra við samhljóða fyrirspurn hv. þingmanns í febrúar 2005 heyra málefni gróðurhúsabænda undir verksvið landbúnaðarráðuneytisins. Í gildi er aðlögunarsamningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, frá árinu 2002, milli fjármála- og landbúnaðarráðherra annars vegar og Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda hins vegar.

Á grundvelli þessa aðlögunarsamnings hefur landbúnaðarráðuneytið, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, unnið að því að koma til móts við þarfir garðyrkjubænda varðandi ódýrara rafmagn. Þessi vinna skilaði sér í því að vorið 2005 undirrituðu landbúnaðarráðherra og Samband garðyrkjubænda samninga við Rafmagnsveitur ríkisins annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar um raforkudreifingu til gróðurhúsalýsingar sem gilda til 31. desember 2011.

Þá skuldbindur landbúnaðarráðuneytið sig til að greiða niður flutning og dreifingu raforku til lýsingar plantna í gróðurhúsum með því að magnliðir í gjaldskrám orkufyrirtækjanna fyrir flutning og dreifingu eru greiddir niður um 95% en framleiðendur garðyrkjuafurða greiða 5%.

Í samningum þessum skuldbinda orkufyrirtækin sig jafnframt til að selja flutning og dreifingu raforku til garðyrkjubænda samkvæmt þeim gjaldskrárlið sem að jafnaði er hagstæðastur hverjum notanda fyrir sig miðað við heildargjöld af flutningi og dreifingu.