133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Raforkan er jú undirstaða atvinnulífs hér á landi. Nærri 80% af henni eru bundin í einni atvinnugrein, stóriðju, erlendri stóriðju á umsömdu verði, verði sem ríkisvaldið sjálft hefur samið um undirboð á. Aðeins liðlega 20% eru á almennum markaði. Gróðurhúsaframleiðslan ætti mikla möguleika hér á landi ef hún nyti jafnréttis við erlenda stóriðju.

Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hér hvert verð væri á raforku annars vegar til garðyrkjunnar og hins vegar til erlendu stóriðjunnar. Það er þetta jafnræði til atvinnulífs sem á að vera hér en ekki það að stjórnvöld ráðstafi 80% af raforkunni (Forseti hringir.) á einhverjum spottprís en síðan keppa aðrir (Forseti hringir.) á verði sem heldur viðkomandi stóriðju uppi. (Forseti hringir.) Það gengur ekki, herra forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða þau knöppu tímamörk sem eru í umræðum af þessu tagi.)

Þetta er nú svo mikið stórmál.