133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:31]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að hreyfa við þessu máli vegna þess að hér er um að ræða gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur. Grænmetisneysla fer ört vaxandi, sem betur fer, í samfélagi okkar og þá skekkir það auðvitað samkeppnisstöðuna fyrir íslenska grænmetisbændur gagnvart innfluttu grænmeti ef þeir þurfa að greiða þetta himinháa raforkuverð.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, auðvitað á að ríkja og verður að ríkja jafnvægi milli atvinnugreina í þessu tilliti. Ég tel að það eigi að koma til móts við garðyrkjuframleiðendur í landinu og lækka raforkuverð til þeirra vegna þess, eins og ég kom inn á í upphafi, að það er mjög stórt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur að þeir fái hér íslenskt grænmeti á sanngjörnu og góðu verði.