133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er að frá stofnun embættis ríkislögreglustjóra árið 1997 hefur kostnaður ríkisins vegna löggæslumála meira en tvöfaldast í krónum talið. Hefur kostnaður við embætti ríkislögreglustjóra sexfaldast í krónum talið á tímabilinu frá 1998–2005 og fjórfaldast að raungildi. Þetta er meðal þeirra staðreynda sem við rekum okkur á þegar farið er að skoða löggæslumálin, ásamt aukinni áherslu á umræðu um öryggislögreglu, óeirðalögreglu og sérsveit. Angi af þessu máli er hin aukna áhersla á þessa þætti löggæslunnar.

Ég er í sjálfu sér ánægð með að heyra hæstv. dómsmálaráðherra lýsa því hér yfir að ekki sé ætlunin að hverfa frá þeirri meginreglu að lögreglan á Íslandi sé óvopnuð við störf sín. Það skiptir okkur verulegu máli að þeirri stefnu sé framfylgt enda vitum við það af rannsóknum sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum okkar að ef hin almenna lögregla býst vopnum er voðinn vís. Þá kallar hún á meira ofbeldi. Það hafa finnskar rannsóknir sýnt fram á og Finnar hafa verið að gera átak hjá sér í að reyna að minnka notkun skotvopna hjá almennri lögreglu. Við erum því algerlega með það á hreinu að það þarf ekki og á ekki að að fara inn á þá braut.

Hins vegar skilur maður að lögreglan, sem í auknum mæli þarf að takast á við ribbalda og ofbeldisseggi við störf sín, þurfi á því að halda að hafa einhvern öryggisbúnað til taks hjá lögregluembættunum. Hér þarf að sjálfsögðu að fara bil beggja í þessum efnum. En það er auðvitað alveg klárt að við höfum ákveðna sérstöðu sem við þurfum að varðveita. Hin almenna löggæsla á Íslandi á að fara fram án þess að lögreglan þurfi að vera vopnum búin.