133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:56]
Hlusta

Eiríkur Jónsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að mörgum hafi brugðið í brún við nýlegar fréttir af hugmyndum um skipan lögreglumála hér á landi. Það virðist á einhvern hátt vera þannig að ákveðinn vígvæðingar- og hörkuandi hafi gripið um sig innan framkvæmdarvaldsins. Nú á m.a. að auka samstarf við bandarísk lögregluyfirvöld, þau miklu hörkutól sem ítrekað hafa orðið uppvís að mannréttindabrotum. Þá eru uppi hugmyndir um stofnun leyniþjónustu og nýjasta nýtt er síðan tillaga starfshóps ríkislögreglustjóra um að vopnbúa að lágmarki 20% lögregluliðs á hverri einustu lögreglustöð.

Ég fagna auðvitað þeim samhljómi á Alþingi að slíkt sé óeðlilegt en þetta er fyrirliggjandi tillaga. Það getur vel verið að aukin harka afbrotamanna kalli á meiri viðbúnað af hálfu lögreglu en ég leyfi mér reyndar að efast um að aukinn vopnaburður komi til með að draga úr hörku afbrotamanna.

Það sem ég vil hins vegar leggja sérstaka áherslu á er nauðsyn þess að Alþingi komi á einhvern hátt að þessum ákvörðunum af því að Ísland hefur verið, a.m.k. lengst af, friðsöm og vopnlaus þjóð og mikil þjóðarsátt hefur ríkt um það. Ef ætlunin er að gera breytingar á þessu, sem vel að merkja liggur fyrir tillaga um, þá er nauðsynlegt að hinir þjóðkjörnu fulltrúar á Alþingi komi að þeirri ákvörðun. Það má hreinlega ekki gerast að slík aukin vígvæðing hér á landi laumi sér inn bakdyramegin án fullnægjandi umræðu á þjóðþinginu og í andstöðu við þjóðina.

Þetta segi ég ekki síst í ljósi sögunnar því það er því miður ekki fordæmalaust að ráðherrar á Íslandi hafi laumað þjóðinni til þátttöku í vopnabrölti að ráði yfirvalda í Washington en án fullnægjandi samráðs við Alþingi og í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar. Það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni að alþingismenn heyri það í fjölmiðlum að 20% lögreglumanna eigi jafnvel að taka upp vopnaburð sem og aðrar hugmyndir um vígvæðingu. (Forseti hringir.) Það má ekki gerast að þessu sé laumað inn án fullnægjandi umræðu á Alþingi.