133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:58]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir mönnum hafa tekist hér að teygja tiltölulega afmarkað umfjöllunarefni yfir býsna breitt svið öryggis- og varnarmála, en ég ætla að reyna að halda mig við það sem málshefjandi vakti máls á sem er grundvallaratriðið um að við höfum ekki vopnaða lögreglu hér á landi, að almenna lögreglan er ekki vopnuð.

Það má segja að umræðan hér í dag hafi leitt í ljós að nýlegar fréttir af skýrslu frá starfshópi ríkislögreglustjóra hafi verið einhvers konar „ekki-frétt“ vegna þess að ekki er verið að leggja til að vopnvæða almennu lögregluna. Og ekki nóg með það heldur er umrædd skýrsla, sem mun vera rúmlega ársgömul eða um það bil, sett fram í fjölmiðlum í einhverjum tengslum við fréttir af því að brotamenn hafi verið vopnaðir þegar þeir voru handteknir við störf af lögreglunnar og reynt að setja einhverja tengingu þarna á milli sem er algjörlega ástæðulaust.

Við fylgjum þeirri meginstefnu sem ráðherrann hefur kynnt hér að almenna lögreglan sé ekki vopnuð. Það er sama stefna og fylgt er í Noregi og Bretlandi til að mynda. Það stendur ekki til að breyta því. Dómsmálaráðherra hefur á undanförnum þingum þurft að berjast mjög fyrir þeirri stefnu sinni að styrkja sérsveitina. Mér heyrist að þingheimur sé að verða meðvitaðri um að það hafi verið skynsamleg stefna og að hann hafi sýnt mikla framsýni með þeim áherslum sínum. Þetta er að sýna sig í störfum almennu lögreglunnar í þeim brotamálum sem við heyrum af í fréttunum. Það hefur ekki verið vanþörf á þeirri styrkingu sem þar hefur verið barist fyrir og dómsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir. Ég held að að það sé vel og við séum á réttri leið í þessum málaflokki.