133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[16:02]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er að vísu rétt að ákveðinn samhljómur er hjá hv. þingmönnum við þessa umræðu og í sjálfu sér átti ég ekki von á öðru. Það hefði komið mér verulega á óvart ef annað hljóð hefði verið í strokknum. Við erum öll sammála um að hinir almennu lögreglumenn, þ.e. næstum allir lögreglumenn á Íslandi utan þeir 45 sem tilheyra sérsveitinni, skuli vera vopnlausir.

Björn Bjarnason hæstv. dómsmálaráðherra sagði að ekki væri ástæða til að hverfa frá þeirri meginstefnu. Það held ég að hann hafi sagt orðrétt. En það sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði ekki eða réttara sagt svaraði ekki var hvort hann hefði tekið afstöðu til þeirra tillagna, sem eru að því er virðist árs gamlar, þ.e. tillögur starfshóps ríkislögreglustjóra um starfsumhverfi lögreglu og um það hvort með einhverjum hætti eigi að setja vopn inn á almennar lögreglustöðvar þannig að þau séu þar tiltæk með einhverjum hætti eða þannig að í þau geti hinir almennu lögreglumenn komist. Ég skil ekki tillöguna með öðrum hætti. Það væri mjög gott að fá skýrt svar við því hvort þetta sé til umræðu hjá framkvæmdarvaldinu. Ég vil taka undir orð hv. þm. Eiríks Jónssonar að þessi umræða á ekki að fara fram þar bara. Hún þarf að fara fram hér á löggjafarsamkomunni, hvort heldur í þessum sal eða í þeim þingnefndum sem hana varðar því að þetta er algjört grundvallarmál í íslensku samfélagi.

Ég vil að lokum taka undir orð hæstv. dómsmálaráðherra um að tryggja þurfi betur vernd lögreglumanna lögum samkvæmt og ég veit að slíkt er í farvatninu. Það féllu hér dómar í vor sem sýndu misræmið í þeirri vernd sem opinberir starfsmenn hafa. Það er gott að verið skuli að vinna að því. (Forseti hringir.) En allir þurfa, lögreglumenn og aðrir einnig, að fara varlega (Forseti hringir.) með það vald sem þeim er gefið.