133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

skipan áfrýjunarstigs dómsmála.

268. mál
[16:12]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eiríki Jónssyni fyrir að hreyfa við þessu máli vegna þess að þetta er eitt af þeim málum sem við höfum talsvert rætt í hv. allsherjarnefnd og einmitt með fulltrúum frá réttarfarsnefndinni, þ.e. um þessa skipan mála.

Jafnframt langar mig aðeins að benda á það að ég veit að við viljum ekki vera með sérdómstóla. En það tengist líka örlítið þessari umræðu. Það væri fróðlegt, ef hæstv. dómsmálaráðherra kemur hér upp aftur, að heyra álit hans á því hvort það væri möguleiki að skoða til dæmis fjölskyldudómstóla, unglingadómstóla, vegna þess að málum fer sífellt fjölgandi. Sérhæfing er að aukast og þetta er spurning um að vinna eins vel og hægt er í hverju máli fyrir sig. Sérhæfingin er þegar mikil þannig að hún mundi þá jafnvel nýtast betur. Þetta er því spurning um sérdómstóla á neðri stigum. Ég er jafnvel að hugsa um þessa millidómstóla og síðan væru stærstu málin fyrst og fremst í Hæstarétti.