133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

skipan áfrýjunarstigs dómsmála.

268. mál
[16:16]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég man í sjálfu sér eftir umræðum sem voru hér á þingi þegar ákveðið var að taka upp deildaskiptinguna í Hæstarétti. Þá sat ég í allsherjarnefnd þingsins og nefndin ræddi þetta mjög gaumgæfilega og við sérfræðinga og niðurstaðan varð sú að leggja til þessa deildaskiptingu í Hæstarétti sem hér hefur orðið að umtalsefni. Ef fyrirspurnin hefði lotið að deildaskiptingu í Hæstarétti og þeim álitamálum sem þar koma fram hefði ég náttúrlega getað svarað þeirri fyrirspurn. Mér heyrist hv. fyrirspyrjandi aðallega hafa áhyggjur af því að ekki sé samræmi í niðurstöðum Hæstaréttar vegna þess að hann er deildaskiptur. Það er álitaefni sem er náttúrlega alveg sérstakt mál sem væri hægt að fara yfir. Ég veit ekki til þess að nokkrar rannsóknir liggi fyrir sem sýni það hér á landi að þessi deildaskipting hafi leitt til misræmis í dómum eða að Hæstiréttur sé ekki sjálfum sér samkvæmur.

Þegar talað er um þessi 700 mál — ég er ekki að gera lítið úr því en þá er nú rétt að hafa í huga hvaða mál það eru sem þrír dómarar fjalla um. Það eru kærumál og það eru minni háttar mál sem Hæstiréttur þarf að taka afstöðu til. Mál eru vissulega mismunandi viðamikil og það er ekki sama sigti hér á málum eins og gagnvart Hæstarétti Bandaríkjanna þannig að við erum að bera saman svolítið ólík kerfi að því er það varðar. Álagið á hæstaréttardómara er mikið en hins vegar hefur tekist að koma þeirri skipan á að hér er ekki málahali, hér er mjög skilvirkt dómskerfi hjá Hæstarétti og það er engin gagnrýni á Hæstarétt fyrir það að hann ljúki ekki verkum sínum innan eðlilegra tímamarka.