133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja athygli á Íslenskri málnefnd og íslenskri tungu en honum er annt um það efni eins og við höfum öll margsinnis orðið vitni að í þingsalnum.

Það er rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að við sameinuðum fimm stofnanir á síðasta þingi þar sem meginmarkmiðið var að reyna að efla íslenskuna og menningararfinn. Það var stóra markmiðið með slíkri sameiningu. Inni í því var líka Íslensk málstöð sem var um leið skrifstofa Íslenskrar málnefndar og það fjármagn sem fylgdi Íslenskri málstöð fór inn í Árnastofnun.

Það má segja að með tilkomu nýju laganna hafi Íslensk málnefnd fengið meira vægi en áður, m.a. með því að móta málstefnu og koma með tillögur til ráðherra varðandi málstefnuna. Henni var jafnframt ætlað að álykta um stöðu íslenskrar tungu auk annarra mikilvægra hlutverka. Staða Íslenskrar málnefndar hefur því verið styrkt frá því sem áður var.

Ég vil geta þess að það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að seta nefndarmanna var framlengd frá því um áramót en við höfum á síðustu dögum fengið tilnefningar inn í þessa stóru og miklu nefnd sem er 15 manna nefnd. Það verður að segjast að þær tilnefningar hafa því miður borist seint en ég hef þá reynslu, m.a. af skipun í höfundaréttarnefnd, að ákvæði sem ég sendi út í öll skipunarbréfin, um að í nefndir og ráð skuli skipað bæði körlum og konum, geti orðið til þess að lengja tímann, þ.e. ef ýtt er á eftir því ákvæði.

Núna eru allir nefndarmenn komnir. Ég get talið upp tilnefningaraðila og jafnframt getið þess að formaður íslenskrar málnefndar verður Guðrún Kvaran og varaformaður Þórarinn Eldjárn.