133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir svör menntamálaráðherra. Það er stundum talað um að Alþingi sé valdalítið en hér hefur það gerst að á einum morgni varð til nefnd sem ekki áður var til, voru skipaðir menn í nefnd sem ekki höfðu verið skipaðir í hana áður. Athygli heils hæstv. ráðherra vaknaði skyndilega á máli sem hann hafði ekki sinnt áður. (Gripið fram í.) Umboð síðustu málnefndar rann út um áramót, sagði ég. Lögin voru samþykkt í maí. Framlengt umboð nefndarinnar rann út í september og núna, 2. nóvember, eru líkur til þess að nefndin verði loksins skipuð. Ég fagna sérstaklega tilnefningum ráðherra sjálfs til formanns og varaformanns. Það er duglegt fólk og vel að sér.

Við spurðum hins vegar um fleira. Við spurðum um fjármál nefndarinnar. Það var athyglisvert að hv. formaður menntamálanefndar skyldi ekki hafa gripið það í ræðu minni vegna þess að við skrifuðum öll, níu menntamálanefndarmenn, undir áskorun til menntamálaráðherra sem ég leit svo á að mundi tryggja að nefndin fengi sérstaka fjárveitingu á fjárlagalið í fjárlögunum. Það er ekki að ástæðulausu. Þegar málnefndin er beinlínis færð inn í lög stofnunarinnar þá verður hún að hafa ákveðið sjálfstæði gagnvart stofnuninni. Næsta setning í nefndarálitinu er svona, með leyfi forseta:

„Nefndin telur eðlilegt að hin nýja stofnun og Íslensk málnefnd geri með sér samning til ákveðins tíma í senn um verkefni, aðstöðu og starfslið og kynni hann menntamálaráðherra.“ — Þetta hefur auðvitað ekki getað gerst í þá tvo mánuði meðan nefndin hefur ekki verið til.

Hið þriðja sem ég spurði um var hvort þetta slugs stafaði af vandræðum hjá starfsliði hæstv. menntamálaráðherra eða hvort þetta væri beinlínis stjórnmálastefna hennar, að koma málnefndinni út og hugsanlega láta starfið í kringum íslenska tungu þróast af sjálfu sér. Ég hef ekki fengið svar við því en nú tekur hæstv. menntamálaráðherra til máls.