133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:11]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni frumvarp sem er talsvert stórt í sniðum, eða a.m.k. greinargerðin sem því fylgir og frumvarpið sjálft í allmörgum greinum. Bak við þetta frumvarp er svo aftur enn stærri skýrsla, skýrsla nefndar menntamálaráðherra, hinnar þverpólitísku nefndar sem átti að fjalla um íslenska fjölmiðla, þannig að bæði í frumvarpinu sjálfu og síðan í skýrslu nefndarinnar er saman dreginn mikill fróðleikur um fjölmiðlamál sem áhugavert er fyrir þá sem fylgjast vel með fjölmiðlum að kynna sér.

Frumvarpið er að stærstum hluta til samið af Páli Hreinssyni, eins og hér kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra, og fjölmiðlanefndin þverpólitíska var undir forustu Karls Axelssonar hrl. Þar sem ég var sjálf í fjölmiðlanefndinni og kom aðeins að frumvarpinu og var kynnt það þegar það var í drögum vil ég þakka þessum ágætu mönnum, Páli Hreinssyni prófessor og Karli Axelssyni hrl., fyrir það hvernig þeir hafa leitt þessa vinnu á undanförnum mánuðum og missirum. Hér er auðvitað mjög vandasamt verk á ferðinni sem þeim var fengið að stýra, ekki síst vandasamt í ljósi þeirra miklu deilna sem hér urðu um fjölmiðlamál á árinu 2004. Segja má að þá hafi allt samfélagið logað stafna á milli vegna deilna um fjölmiðla og það frumvarp til fjölmiðlalaga sem hér var lagt fram af ríkisstjórninni og varð, reyndar með nokkrum breytingum, að lögum á vormánuðum 2004 sem forseti synjaði síðan staðfestingar 2. júní 2004. Menn muna þann darraðardans allan sem þá varð um fjölmiðlamálin þannig að þegar sú niðurstaða lá fyrir að lögin sem samþykkt voru á þingi næðu ekki fram að ganga vegna þess að staðfestingu forseta skorti, þá varð ljóst að úr talsvert vöndu var að ráða. Niðurstaðan varð á endanum sú að ráðherra skipaði sérstaka fjölmiðlanefnd sem við áttum sæti í, þrír þingmenn úr stjórnarandstöðunni, nefnd sem vann mjög gott verk og skilaði síðan þessari skýrslu sem fyrr er nefnd.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir er gerólíkt því frumvarpi til laga sem hér var lagt fram árið 2004. Himinn og haf skilja að þessi tvö frumvörp. Það er í raun merkilegt í ljósi þess sem gerst hefur á umliðnum missirum, að skoða upphaflega frumvarpið sem lagt var fram af ríkisstjórninni á sínum tíma og í raun makalaust að slíkt frumvarp skuli hafa komið inn í þingið. Það eiginlega datt af himnum ofan inn í þingið, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Ef frumvarpið er skoðað, virðulegur forseti, gengur það allt út á boð og bönn. Ríkisstjórn sem kennir sig við frjálshyggju og frjálslyndi leggur fram frumvarp til fjölmiðlalaga, um fjölmiðla sem eru mikilvægustu grunnstofnanir í lýðræðisríkjum, sem gengur allt út á boð og bönn. Þegar maður skoðar 1. gr. þess frumvarps þá hefst hún svo, virðulegur forseti:

„Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig er óheimilt að veita útvarpsleyfi fyrirtæki sem að hluta eða öllu leyti er í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu … Þá er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki á meira en 25% eignarhlut í því. Sömuleiðis er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga samanlagt meira en 25% eignarhlut í því. Jafnframt er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef það eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga hlut í útgefanda dagblaðs …“

Svona var það frumvarp. Það er allt um það sem óheimilt er og byggir algerlega á boðum og bönnum. Það byggist að stærstum hluta á vanþekkingu á fjölmiðlamarkaði. Það hrópar á mann frá þessu frumvarpi hvað það byggir á mikilli vanþekkingu á fjölmiðlamarkaði. Það byggist m.a. á því að hægt sé að gera algeran og skýran greinarmun á ljósvakamiðli annars vegar og dagblaði hins vegar. En allir sem flakka um á netinu í dag vita að þar rennur saman dagblað, netmiðill og ljósvaki. Það er ekki hægt að gera þennan greinarmun miðað við þá tækni notuð er nú til dags.

Hins vegar byggði málið líka á algerri vanþekkingu á rekstrarumhverfi í fjölmiðlum. Það rekstrarumhverfi hefur verið mjög erfitt alla tíð. Það hefur verið erfitt að fjármagna fjölmiðlafyrirtæki. Dagblöð og ljósvakamiðlar hafa lagt upp laupana vegna þess að fyrirtækin hafa ekki getað náð í það fjármagn sem þau þurftu til að reka sig. Frumvarpið byggði því á algerri vanþekkingu, annars vegar á þeim tæknibreytingum sem þá voru að verða að veruleika og hins vegar á rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Í þeirri umræðu sem þá fór fram um fjölmiðlafrumvarpið lagði Samfylkingin megináherslu á gegnsæi, á gegnsæi í eignarhaldi og gegnsæi varðaði ritstjórnarstefnu, að fjölmiðlar hættu að skýra út fyrir kaupendum sínum, lesendum sínum, áhorfendum eða hlustendum, hver ætti viðkomandi miðil, hverjir stæðu á bak við hann og hver væri ritstjórnarstefna viðkomandi miðils þannig að áhorfendur, hlustendur eða lesendur, gætu borið saman fréttaflutninginn og umfjöllunina sem miðillinn stendur fyrir og hins vegar hvort hann væri smitaður af eignarhaldinu sem að baki býr. Þeir gætu þá borið saman hvort fréttaflutningur og umræða í viðkomandi miðli endurspeglaði raunverulega þá ritstjórnarstefnu sem viðkomandi miðill hefði í orði kveðnu. Þetta töldum við aðalatriði málsins, að þetta gegnsæi væri til staðar.

Þá voru þau sjónarmið uppi í Samfylkingunni að í stað þess að setja ákveðnar reglur um eignarhaldið ættu almenn sjónarmið að ríkja um að hamla gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Við töldum það aðalatriðið rétt eins og gengið er út frá í samkeppnislöggjöf okkar. Samfylkingin lagði mikla áherslu á að verja sjálfstæði ritstjórnar gagnvart afskiptum eigenda og töldum að setja þyrfti um það sérstakar reglur og þá mátti einu gilda í okkar huga hvort eigandinn væri ríkið, með menntamálaráðherrann sem fulltrúa eigenda í fararbroddi eða hvort eigandinn væri annar aðili sem hefði einhverja viðskiptalega hagsmuni, hvort sem það væri ríkið og pólitískir hagsmunir eða aðrir eigendur og viðskiptalegir hagsmunir eða pólitískir, sem sannarlega fyrirferðarmiklir hjá aðilum í viðskiptalífinu. Þetta töldum við aðalatriði málsins.

Við bentum á það í umræðunni þá, virðulegi forseti, að óþarfi væri að vera með þessi mál í slíkri deilu og úlfúð í þinginu eins og þá var. Við töldum hægt að ná sæmilegri samstöðu um fjölmiðlamál ef menn bara reyndu.

Allir þingmenn sögðust vilja tryggja sem mesta fjölbreytni og mest fjölræði á fjölmiðlamarkaði og það var ljóst, ef hlustað var eftir þeim undirtóni sem var í umræðunni, að hægt væri að ná sæmilega breiðri samstöðu ef menn legðu sig fram um það. Það hefur auðvitað orðið raunin. Það hefur komið á daginn, eins og þverpólitíska nefndin er órækasti vitnisburðurinn um. Auðvitað teygðu menn sig þar í átt til samkomulags. Þar fékk enginn allt sem hann vildi og menn gerðu málamiðlanir en það var hægt að ná sæmilegu samkomulagi í nefndinni.

Fyrra frumvarpið sem kom fyrir þingið er skólabókardæmi um hvernig ekki á að vinna. Til dæmis fór ekki fram nein stefnumótandi umræða í þinginu áður en frumvarpið var samið. Það kom út skýrsla sem var unnin af hópi sérfræðinga. Hún var sett fram og örfáum dögum seinna var komið frumvarp, sem ekki einu sinni byggir á þeirri skýrslu heldur er bara samið sisvona. Hina pólitísku umræðu til undirbúnings, stefnumótandi umræðu, vantaði. Það var efnt til átaka að nauðsynjalausu og samfélagið og mikilvægustu stofnanir þess voru settar á annan endann til að þjóna lund ráðamanna. Þannig var það.

Það gefur manni hins vegar tilefni til að segja örfá orð um vinnubrögð ríkisstjórnar og Alþingis. Í sjálfu sér hefði ég kosið að skýrsla fjölmiðlanefndarinnar sem kom fram í apríl 2005 hefði verið lögð fyrir þingið til stefnumótandi umræðu, að þingið hefði tekið umræðu á grundvelli skýrslunnar og síðan hefði það ályktað að fela ríkisstjórninni að semja frumvarp á grundvelli þessarar stefnumótunar. Það finnst mér vera hinn eðlilegi farvegur mála, að þingið taki fyrst stefnumótandi umræðu og feli síðan framkvæmdarvaldinu að vinna á grundvelli þess sem menn koma sér saman um eða meiri hluti þingsins kemur sér saman um.

En gott og vel. Það er ekki á allt kosið. Það sem við erum með hér er þó sannarlega framför frá því sem áður var. Ég hefði kosið að við hefðum staðið þannig að málum gagnvart Ríkisútvarpinu. Það hefði einmitt átt að setja saman skýrslu um Ríkisútvarpið, tíunda þar hvert ætti að vera hlutverk Ríkisútvarpsins, menningarlegt hlutverk, pólitískt hlutverk, eftirlitshlutverk; hvernig hugsanlegt sé að fjármagna slíka stofnun, hvert sé mögulegt rekstrarform o.s.frv. Þingið hefði átt að taka stefnumótandi umræðu um Ríkisútvarpið og á grundvelli þess hefði síðan átt að semja frumvarp um Ríkisútvarpið. Ég er sannfærð um að það hefði gengið betur að koma málum fram með þeim hætti en hefur gengið með Ríkisútvarpið, eins og þar hefur verið staðið að málum.

Virðulegur forseti. Þetta segi ég vegna þess að mér finnst brýnt að þingið, ráðherrarnir og ríkisstjórnin, taki þetta samspil þings og framkvæmdarvalds til endurskoðunar og að menn standi með öðrum hætti að málum í þinginu en tíðkast hefur hingað til. Þar er ég ekki að draga menn í pólitíska dilka. Þetta er vinnulag sem hefur þróast og að mínu viti hefur það þróast í ranga átt. Ég tel mikilvægt að við gerum meira af því að ræða stefnumótandi skýrslur á þinginu og fela á grundvelli þeirra ríkisvaldinu að semja frumvörp um tiltekin mál. En það er hægt að ræða síðar.

Virðulegur forseti. Himinn og haf skilur að þetta frumvarp og hið fyrra. Hér hefur verið vandað til verka þó að eflaust geti verið skiptar skoðanir um einstaka þætti málsins. Þótt sæmilega breið samstaða náist í svona nefnd er ekki þar með sagt að allur ágreiningur eða öll skoðanaskipti séu úr sögunni og menn geti ekki haft aðeins mismunandi áherslur eftir sem áður. Við skulum ekki gera ráð fyrir að við getum múlbundið alla þingmenn vegna þess að við náðum saman í nefndinni. Það væri heldur ekki eðlilegt. Það hlýtur að vera áherslumunur á milli manna í svona máli og ekkert við það að athuga.

Að mínu viti er merkasti þáttur þessa frumvarps sá sem lýtur að reglum um flutningsrétt og flutningsskyldu, þ.e. að efnisveitur og sjónvarpsstöðvar eigi rétt á að fá dreifingu hjá þeim dreifiveitum sem þær óska eftir, að þær komist eftir þeim dreifiveitum sem tiltækar eru, að efnisveiturnar, sjónvarpsstöðvarnar komist eftir þessu þjóðvegakerfi sem tiltækt er í dreifiveitunum. Svo þarf reglan auðvitað að ganga í báðar áttir, þ.e. að dreifiveiturnar eigi rétt á að fá til flutnings á sínu dreifikerfi það efni sem þær kjósa. Þetta finnst mér meðal merkustu nýmæla í þessu frumvarpi. Mér finnst þetta marka talsverð tímamót, sú tillögugerð sem uppi er í þessu efni.

Þetta þýðir það að Og Vodafone og 365 miðlar geta ekki neitað að flytja Skjá einn í gegnum sitt dreifikerfi og Síminn getur ekki neitað að flytja Stöð 2 í gegnum sitt kerfi. Þetta er gríðarlega mikilvægt, virðulegur forseti, fyrir neytendur. Þar með á að komast í veg fyrir að þeir geti lokast inni í tilteknum kerfum hjá fjarskiptafyrirtækjunum sem farin eru að bjóða upp á pakkalausnir fyrir heimilin, pakkalausnir fyrir nettengingu, fastlínusíma, farsíma, myndbandaleigu o.s.frv. Þau eru kannski með tilboð í gangi til fólks sem hljómar vel en gæti haft það í för með sér, sé þetta ekki til staðar, að fólk læstist inni í tilteknum dreifiveitum og ætti ekki völ á efni frá öðrum en þeim sem hafa gert samninga við þær dreifiveitur eins og málum er háttað í dag.

Á þessu eru auðvitað ákveðnar takmarkanir engu að síður, virðulegur forseti. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að auðvitað er ekki hægt að skikka dreifiveitur til að flytja hvað sem er ef rýmið inni á kerfinu er takmarkað. Það er ekki hægt að skylda þær til að gera það á hvaða verði sem er þannig að setja verður ákveðnar takmarkanir á þetta. Það kemur fram, virðulegur forseti, að sá varnagli er sleginn að aðeins megi skylda fjarskiptafyrirtæki til að flytja efni sem nemur einum þriðja flutningsgetu fjarskiptanetsins, þannig að einhver einn aðili geti ekki tekið upp bróðurpartinn af netinu.

„Ef fleiri útvarpsstöðvar óska eftir að dagskrár þeirra verði fluttar en fjarskiptanet annar skal fjarskiptafyrirtækið flytja þær dagskrár sem hafa mest áhorf samkvæmt mælingum útvarpsréttarnefndar. Ávallt skal þó flytja dagskrá Ríkisútvarpsins sé þess óskað.“

Mér finnst það eðlilegur varnagli sem hér er sleginn. Síðan kemur ýmislegt um gjaldskrár og uppgjörsreglur sem er nokkuð flókið og viðurhlutamikið. Það kann vel að vera að það þurfi skoðunar við í nefndinni hvernig þeim málum er háttað.

Ég tel einnig mikilvægt, virðulegur forseti, að hér eru settar reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði í frumvarpið þótt ég sé ekki svo bernsk að halda að það þýði að eigendur sjónvarpsstöðva, útvarpsstöðva eða dagblaða reyni ekki þar með að hafa áhrif, að reglurnar komi í veg fyrir að þær reyni að hafa áhrif á það sem skrifað er eða sagt í viðkomandi miðli. Engu að síður tel ég að þetta geti skapað aðhald og búið til ákveðna festu í störf blaðamanna og ritstjórna.

Varðandi eignarhaldið tel ég þær reglur sem hér eru settar um gegnsæi í eignarhaldi mjög mikilvægar. Á það var reyndar lögð mikil áhersla í nefndinni, að slíkar reglur væru mjög skýrar og almenningur ætti greiðan aðgang að upplýsingunum um hverjir ættu fjölmiðla, eins og ég sagði áðan. Varðandi síðan almennar skorður við eignarhaldi á fjölmiðlum þá gerði nefndin tillögur um ákveðnar skorður. En þær skorður voru að okkar mati málefnalegar og almennar. Við töldum að með því væri meðalhófs gætt þótt auðvitað megi alltaf deila um hvert hlutfallið eigi að vera. Hvert er hið rétta hlutfall? Ég held að það verði seint hægt að finna leiðir til að skera úr um það. Hins vegar má segja að við gerðum tillögu um að settar yrðu ákveðnar skorður en þá og því aðeins ná þær til fjölmiðla að viðkomandi fjölmiðill hafi verulegt dagskrárvald, hann hafi mikla útbreiðslu og þar af leiðandi mikið dagskrárvald, ef svo má segja. Hann getur verið ráðandi í umræðunni á fjölmiðlamarkaði. Þá og því aðeins ættu þessar reglur að ná til fjölmiðlanna. Hugsunin var að reyna að stuðla að fjölræði með þessu en okkur var líka mjög vel ljóst í nefndinni að þetta hefði hins vegar lítil áhrif á fjölbreytni.

Út af fyrir sig geta allir þessir fjölmiðlar sent út eins efni, sams konar sápuóperu, sams konar umræðuþætti, sams konar tónlistarkeppni eða hvað þetta er allt saman. Þetta hefur því kannski ekki mikið með fjölbreytnina sem slíka að gera, hina menningarlegu fjölbreytni eða pólitísku, en tryggir á hinn bóginn fjölræði.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn en það voru örfá atriði sem ég hjó eftir í sjálfu frumvarpinu sem mér finnst ástæða til að spyrja út í. Það er m.a. í 2. gr. þar sem segir:

„Útvarpsréttarnefnd er heimilt að gera samning við Hagstofu Íslands um að annast söfnun framangreindra upplýsinga og úrvinnslu þeirra.“

Ég fór að velta því fyrir mér af hverju sett er inn í frumvarpstextann að heimilt skuli að gera samning við Hagstofu Íslands. Því skyldi ekki vera hægt að gera samning við hvern sem er um þetta? Við Háskóla Íslands eða einhvern annan aðila. Ég vildi spyrja út í þetta.

Í 4. gr. finnst mér svolítið sérkennilegt þegar segir:

„Útvarpsstöðvar skulu gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er, svo og fyrirhugaðri grundvallarbreytingu á áður kynntri dagskrá.“

Það getur ekki verið að þær þurfi alltaf að láta vita um breytingar á dagskrá eins og hún er send út frá degi til dags heldur er þarna væntanlega átt við dagskrárstefnuna. Um það vildi ég spyrja, virðulegur forseti.

Varðandi reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þá finnst mér það svolítið viðurhlutamikið að inni í textanum sé að þær skuli endurskoðaðar árlega. Kannski kemur það ekki að sök og gæti þess vegna verið með þeim hætti að þær séu óbreyttar frá ári til árs þótt þessi regla sé þarna inni. En út í þetta vildi ég spyrja, virðulegi forseti, áður en ég vík úr pontu.