133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:33]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem farið hefur fram um þetta stóra og mikla mál. Mér heyrist á flestum að málið sé vel unnið og ég tel líka að svo sé. Við erum margoft búin að fara í gegnum það og höfum fengið okkar færasta fólk til þess að koma að því í því skyni að frumvarpið sé byggt á faglegum grunni. Og það er ekki einungis færasta fólk á meðal fagmanna sem hefur komið að málinu heldur hafa ötulir þingmenn komið að því að mynda og móta þessa pólitísku sátt og hvað felst í henni. Ég held að það hafi líka komið fram, m.a. í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að slíkt þýði ekki endilega að menn séu sammála um öll atriði en menn hafi verið sammála um að það þurfti að ná sátt. Þá gefa menn eftir og koma til móts við ákveðin sjónarmið, því, eins og m.a. kom fram í máli hv. þm. Eiríks Jónssonar, þótt fyrra fjölmiðlamálið hafi leitt til mikilla deilna í samfélaginu þá voru menn sammála um það meginstef þegar upp var staðið að hér ætti að móta almenna rammalöggjöf sem stuðlaði að fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum. Þannig væri stuðlað að umhverfi þar sem fyrirtækin gætu dafnað en um leið sinnt þeirri mikilvægu skyldu sem slíkir fjölmiðlar verða að geta sinnt. Allir eru sammála um að aðrar reglur gilda um fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði vegna þeirra lýðræðislegu markmiða og hugmynda og krafna sem hægt er að gera til þeirra sem reka og starfa við þannig fjölmiðla.

Mönnum hefur verið tíðrætt um að það hefði átt að ræða þessi mál saman. Ég veit ekki betur en að við umræðuna um Ríkisútvarpið þegar öll málin voru sett hér á dagskrá saman þá hafi menn ekki verið reiðubúnir til þess að taka málin saman. Það kom fram tillaga þess efnis en menn voru ekki reiðubúnir í hana og fyrst svo er, fyrst ekki er hægt að ræða málin saman í þingsal er ekki endilega eðlilegt að þau verði síðan meðhöndluð saman í þingnefnd. En gott og vel, þetta er búið og ég held að það sé hollt og gott fyrir alla að læra af sögunni og reyna síðan að gera betur næst. En undirtektir við frumvarpinu sem við ræðum nú hafa verið góðar, menn hafa komið með fínar ábendingar sem ég tel mikilvægt að hv. menntamálanefnd fari vel yfir og að allir komi með ákveðin sjónarmið.

Ég ætlaði líka að reyna að svara hér fyrirspurnum sem komu m.a. frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði, að mig minnir, um 2. gr. í frumvarpinu varðandi söfnun upplýsinga, af hverju standi í greininni að útvarpsréttarnefnd skuli semja við Hagstofuna en ekki við háskólann eða einhverja aðra aðila, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt. Þá er því til að svara að þarna er um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða, það viðkvæmar að sum fyrirtæki vilja helst ekki láta þær frá sér nema þau geti verið þess fullviss að þær séu aðeins notaðar til þess að safna og vinna ákveðna tölfræði og það er hlutverk Hagstofunnar að sinna slíku. Fyrirtækin hafa helst viljað senda upplýsingar sínar þangað og það hefur meira að segja oft verið erfitt fyrir menntamálaráðuneytið að fá og nálgast slíkar upplýsingar. Það ríkir ákveðið traust í garð Hagstofunnar til þess að vinna úr slíkum upplýsingum og leggja fram tölfræði sem síðan nýtist útvarpsréttarnefnd til þess að hún geti sinnt því hlutverki sem henni er falið í frumvarpinu.

Hv. þingmaður spurði einnig um dagskrárstefnuna. Ég legg nákvæmlega sama skilning í þetta og hv. þingmaður, þ.e. í tilkynningu um nýja dagskrárstefnu í 4. gr., þar er í rauninni ekki um neina breytingu að ræða miðað við núgildandi lög. Það er sambærilegt ákvæði í núgildandi lögum varðandi veitingu útvarpsleyfa og það er engin efnisbreyting hvað þetta atriði varðar.

Hvað varðar ritstjórnarlegt sjálfstæði, þ.e. endurskoðun sem er kveðið á um að eigi að vera árlega, þá er ekki gert ráð fyrir því í þessum reglum að viðmiðunum sé breytt árlega, heldur er hugsunin sú að stefnan sé sífellt til umræðu og að bæði ritstjórar og blaðamenn séu meðvitaðir um reglurnar sem settar hafa verið til þess að tryggja það sem menn vildu fá í gegn með skýrslunni, þ.e. að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði og þær reglur sem það snertir. Það er eingöngu verið að ræða um að menn séu meðvitaðir um nauðsyn þess að umræða fari reglulega fram um hvernig málum er háttað hverju sinni, að þetta sé rætt árlega.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi að það hafi ekki orðið mjög miklar breytingar á fjölmiðlamarkaðnum eftir 1986. Ég er einfaldlega ósammála þessu. Útsendum stundum efnis hefur fjölgað úr 700 í 2.400 og mér finnst það skipta máli. Auðvitað hafa menn misjafna skoðun á því hvaða efni er verið að bjóða upp á en það eru fleiri en ein stöð sem senda út efni, það eru fleiri en Ríkisútvarpið, og ég tel að mörgu leyti að frjálsu stöðvarnar, einkareknu stöðvarnar hafi staðið sig afar vel á síðustu árum varðandi framleiðslu á íslensku efni.

Mér fannst stundum við vera komin út í ákveðna umræðu varðandi Ríkisútvarpið sem við tókum ekki alls fyrir löngu í þingsalnum. Það er margt hægt að segja um það sem kom fram, en ég álít að þetta frumvarp tryggi þá fjölbreytni og það sjálfstæði sem menn eru að tala um, þetta rekstrarlega sjálfstæði, eins og hv. þm. Mörður Árnason orðaði það, gagnvart stjórnvöldum. Ég er sannfærð um að frumvarpið kemur til með að skýra og skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins. Við gerum auknar kröfur til þess og það gerum við enn frekar með samningnum og samningsdrögunum sem liggja fyrir. Með frumvarpinu munum við m.a. fjölga þeim stundum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi um — þær voru reyndar 4.500 sé ég hér — þeim stundum sem koma frá sjálfstæðum framleiðendum í innlendu dagskrárefni, íslensku efni, mun fjölga. Við erum að forgangsraða, eins og ég gat um í ræðum mínum 1. umr. um Ríkisútvarpsins, minnir mig, því fjármagni sem fer til Ríkisútvarpsins í þágu íslenskrar dagskrárgerðar, í þágu íslenskrar framleiðslu til þess að stuðla að því að Ríkisútvarpið nái að sinna menningarhlutverki sínu.

Ég legg áherslu á, eins og ég gat um áðan, að það frumvarp sem við ræðum hér byggist á þeirri pólitísku sátt sem við náðum í gegnum fjölmiðlanefndina og ég vil þakka þeim sem komu og áttu þar hlut að máli og eru m.a. staddir hér í þingsalnum. Það er afar mikilvægt að menntamálanefnd fari mjög gaumgæfilega yfir frumvarpið núna. Eins og ég gat um áðan er þetta í fyrsta sinn sem við höfum tækifæri hér í þinginu til þess að ræða lagafrumvarp á þessum grunni. Við erum búin að taka umræðuna um skýrsluna sem slíka og það voru margar athyglisverðar ábendingar og sjónarmið sem komu þar fram en núna erum við sem sagt að ræða lagafrumvarpið og þá hafa bæði nefndarmenn og þingmenn tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum sínum og ábendingum og ég vona innilega að það tækifæri verði nýtt og málið gaumgæfilega yfirfarið.

Hæstv. forseti. Að svo mæltu vil ég undirstrika, eftir að hafa hlustað á ræður þingmanna, að ég tel að markmiðið með þessu frumvarpi sé að reyna að tryggja fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum. Það er byggt þannig upp að fjölmiðlar geti rekið sig sjálfstætt, að rekstrarlegar forsendur séu fyrir fjölmiðla. Það er þetta sem við erum að reyna að ná og að stuðla að, þ.e. fjölbreytni og fjölræði. Mér sýnist að breið samstaða geti myndast um þetta mál en engu að síður er mikil vinna fram undan hjá hv. menntamálanefnd sem mun fá tækifæri til að hitta m.a. hagsmunaaðila og fleiri aðila sem þetta mál varðar og það verður athyglisvert að fylgjast með allri þeirri framvindu.