133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

almenn hegningarlög og skaðabótalög.

21. mál
[15:59]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum og skaðabótalögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að gerðar verði breytingar á þremur ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að við miskabótaákvæði 26. gr. skaðabótalaga bætist ný málsgrein sem rýmkar bótarétt þolenda meingerðar gegn æru eða persónu sinni og fjölskyldu mjög frá því sem nú er. Frumvarpið var áður flutt á 132. löggjafarþingi en komst ekki til umræðu þá og er því endurflutt hér.

Markmið flutningsmanna frumvarpsins eru einkum tvenns konar. Annars vegar að auka friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldna þeirra umfram það sem núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Hins vegar er markmiðið að auka verulega skaðabótarétt þeirra sem verða fyrir aðför gegn æru sinni eða persónu. Er frumvarpinu því einkum ætlað að bæta réttarstöðu þolenda ærumeiðinga og aðdróttana. Frumvarpið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að gerðar verði breytingar á refsiákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga eins og þau eru nú. Hins vegar kom til álita við vinnslu frumvarpsins að breyta sektarákvæðum kaflans þannig að kveðið yrði á um lágmarkssektarfjárhæð vegna brots sem varðaði við ákvæði hans, en niðurstaðan varð sú að leggjast ekki í tillögugerð að þessu sinni.

Hugmyndir um nauðsyn þess að taka til endurskoðunar ákvæði laga sem fjalla um meiðyrði og friðhelgi einkalífs og bótarétt vegna slíkra meingerða eru ekki nýjar af nálinni. Um margra ára skeið hafa komið fram ábendingar um að miskabætur vegna slíkra meingerða séu of lágar. Má t.d. nefna að árið 1996 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga sem mælti fyrir um endurskoðun meiðyrðalöggjafarinnar.

Herra forseti. Friðhelgi einkalífsins nýtur stjórnarskrárvarinnar verndar samkvæmt ákvæðum VII. kafla stjórnarskrárinnar frá 1944 og kemur sú vernd fram í 71. gr. hennar þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“

Sambærilega vernd friðhelgi einkalífs og fjölskyldu er að finna í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.“

Eins og sjá má af tilvitnuðum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu er friðhelgi einkalífs borgaranna, fjölskyldna þeirra og heimila ætlað að njóta ríkrar verndar í löggjöfinni, enda má telja slíka friðhelgi til mikilsverðra mannréttinda borgaranna. Hins vegar er ljóst að vernd friðhelgi einkalífsins er ekki takmarkalaus samkvæmt framangreindum ákvæðum því framkvæmdarvaldinu er heimilt að skerða hana. Slíkt verður þó ekki gert nema að uppfylltum ströngum skilyrðum. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að friðhelgi einkalífsins megi takmarka ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, þó ekki nema sérstök lagaheimild liggi henni til grundvallar. Ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu setur slíkum takmörkunum einnig ströng skilyrði því þar segir að framkvæmdarvaldinu sé óheimilt að ganga á þessi mikilsverðu mannréttindi nema lög mæli svo fyrir og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla og annarra ástæðna sem teljast verða þjóðhagslega mikilsverðar. Það má því ljóst vera að friðhelgi einkalífs borgaranna, fjölskyldna þeirra og heimilis er að meginstefnu ætluð rík vernd sem framkvæmdarvaldinu er einungis heimilt að takmarka þegar mikið liggur við og almannahagsmunir eru í húfi.

Friðhelgi einkalífsins nýtur hins vegar ekki einungis verndar í samskiptum borgaranna við hið opinbera. Samkvæmt íslenskri löggjöf nær verndin einnig til samskipta einstaklinga. Segja má að um langa hríð hafi löggjafinn litið svo á að vernda beri æru manna samkvæmt lögum. Má þar nefna að æra manna naut verndar eldri hegningarlaga, frá árinu 1869. Raunar má hverfa aftur til Grágásar, laga íslenska þjóðveldisins, til að sjá að löggjafi þess tíma taldi ástæðu til að lögvernda æru manna. Samkvæmt XXV. kafla núgildandi hegningarlaga er felld refsiábyrgð á þá sem sekir eru dæmdir fyrir ærumeiðingar í annarra garð og brot gegn hinni stjórnarskrárvörðu friðhelgi einkalífsins. Af ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga er ljóst að hver sá sem talinn er af dómstól hafa brotið gegn æru eða persónu manns eða gegn friðhelgi einkalífs hans getur bakað sér refsingu, ýmist sektir eða fangelsisvist, með háttsemi sinni.

Þá er rétt að geta þess að fórnarlömb slíkra afbrota geta samkvæmt núgildandi ákvæði 26. gr. skaðabótalaga krafist miskabóta frá hendi þeirra sem brjóta gegn æru þeirra eða persónu, eins og ég mun víkja að á eftir. Af öllu framangreindu er ljóst að íslenskri löggjöf er ætlað að standa dyggan vörð um friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldna þeirra, þar með talið æru þeirra og mannorð. Hver sá sem brýtur gegn þeim rétti getur, samkvæmt gildandi lögum, bakað sér refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð.

Herra forseti. Eins og áður segir mæla ákvæði 26. gr. núgildandi skaðabótalaga fyrir um skaðabótarétt þolenda ærumeiðinga. Segir í ákvæðinu að heimilt sé „að láta þann sem … ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.“

Þá er rétt að geta þess að samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga er heimilt að dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun til þess að greiða þeim sem misgert er við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. Með frumvarpi þessu er ekki lagt til að gerð verði breyting á þessu ákvæði almennra hegningarlaga. Hins vegar er lagt til að réttur þolenda ærumeiðinga og aðdróttana verði aukinn þannig að miskabætur vegna slíkra meingerða verði í framtíðinni hærri en nú er raunin.

Þegar litið er til þeirra dóma sem fallið hafa í málum sem þessum og metnar eru þær bætur sem dæmdar hafa verið í slíkum tilvikum er í sjálfu sér ekki um auðugan garð að gresja, enda hafa fáir dómar fallið á þessu réttarsviði á undanförnum árum. Af þeim dómum sem þó liggja fyrir má fullyrða að fjárhæðir þeirra miskabóta sem dæmdar hafa verið þolendum hafa verið afar lágar, raunar í algjöru skötulíki. Má því segja að dómstólar hafi fram til þessa metið æru manna lágu verði. Vera kann að sú staðreynd hafi leitt til þess að færri en ella hafi leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum vegna slíkra meingerða þar sem slíkar málsóknir hafi fram til þessa haft litla þýðingu fyrir þá sem telja að á sér hafi verið brotinn réttur.

Herra forseti. Á sama hátt og ákvæði stjórnarskrár og almennra laga standa vörð um friðhelgi einkalífsins er tjáningarfrelsið varið í stjórnarskránni og ákvæði þess efnis er að finna í 73. gr. stjórnarskrárinnar sem ég ætla ekki að lesa upp hér í heild sinni.

Um það er ekki deilt að tjáningarfrelsið er meðal dýrmætustu mannréttinda og hefur verið varið í íslenskum lögum allt frá því að fyrsta stjórnarskrá Íslands var lögleidd árið 1874. Þó svo að í tjáningarfrelsinu felist mikilvæg mannréttindi hefur löggjafinn ekki talið ástæðu til að lögleiða skilyrðislausan rétt manna til þess að láta skoðanir sínar í ljós án þess að ábyrgð fylgi orðum. Því er kveðið á um það í 73. gr. stjórnarskrárinnar að þó svo að hver maður eigi rétt á að láta hugsanir eða skoðanir sínar í ljós, þá verði hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Umgangist menn því ekki tjáningarfrelsið með þeim hætti sem til er ætlast af löggjafanum og dómstólum geta þeir bakað sér refsiábyrgð og eftir atvikum skaðabótaskyldu. Þegar slík álitamál koma til kasta dómstóla takast venjulega á sjónarmið er varða rétt manna til að láta skoðanir sínar í ljós annars vegar og friðhelgi einkalífs þeirra sem skoðanirnar varða hins vegar. Við úrlausn slíkra mála meta dómstólar hvar mörkin liggja milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífsins.

Flutningsmenn frumvarps þessa telja að á síðustu árum og missirum hafi friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldna þeirra átt undir högg að sækja. Sem dæmi um það má nefna að í opinberri umræðu á Íslandi hefur færst í vöxt að mjög nærri hafi verið gengið persónu og æru einstaklinga í fjölmiðlum, þeir nafngreindir, af þeim birtar ljósmyndir og sagðar fréttir af persónulegum högum þeirra og fjölskyldna þeirra. Svo langt hefur reyndar verið gengið upp á síðkastið að fjallað hefur verið um ætlaðar misgjörðir, jafnvel ætluð lögbrot, nafngreindra manna og af þeim verið birtar ljósmyndir án þess að þeir hafi verið dæmdir af dómstólum landsins fyrir þau ætluðu afbrot sem á þá hafa verið borin. Ætla má að slíkur fréttaflutningur sé afar þungbær þeim sem fyrir honum verður, en gjarnan hefur hann verið réttlættur með því að tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar heimili slíkt inngrip í einkalíf manna.

Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir skerðir ekki að mínu mati og flutningsmanna hið stjórnarskrárvarða tjáningarfrelsi, enda telja flutningsmenn þess það ekki vera hlutverk löggjafans að kveða á um það hvaða skoðanir sé heimilt að láta í ljós um einstaklinga í opinberri umræðu og hverjar ekki. Telja flutningsmenn frumvarpsins það heldur ekki hlutverk löggjafans að kveða á um það hvaða fréttir séu fluttar í fjölmiðlum og hverjar ekki, eða hlutast til um framsetningu þeirra. Hins vegar telja flutningsmenn frumvarpsins nauðsynlegt að tryggja réttarstöðu þeirra sem fyrir slíkri umfjöllun verða með því að láta þá sem nýta sér tjáningarfrelsið til að tjá skoðanir sínar bera ríkari ábyrgð á orðum sínum að lögum en nú er raunin, brjóti þeir gegn rétti þeirra sem þeir fjalla um.

Virðulegi forseti. Mig langar þá að þessari yfirferð lokinni að víkja stuttlega að meginatriðum frumvarpsins. Annars vegar að ákvæðum 1.–4. gr. frumvarpsins og hins vegar sérstaklega að 5. gr. þess.

Eins og áður segir kveður 71. gr. stjórnarskrárinnar á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þegar skoðuð eru ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga, einkum ákvæði 233. gr. a, 234. gr. og 235. gr., sem fjalla um ærumeiðingar, aðdróttanir, háð, smánun, róg og fleira, má sjá að réttarvernd þeirra ákvæða nær eingöngu til þess einstaklings sem telst vera fórnarlamb slíkrar meingerðar. Í 1.–3. gr. frumvarpsins er lagt til að réttarvernd ákvæðanna nái einnig til fjölskyldna þolenda slíkra meingerða. Með frumvarpinu er því lagt til að réttarvernd áðurnefndra ákvæða almennra hegningarlaga verði breytt til samræmis við ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og reyndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Felur frumvarpið því í sér aukna vernd friðhelgi einkalífs frá því sem nú gildir. Telja flutningsmenn frumvarpsins að meingerðir gegn æru og persónu einstaklinga geti ekki síður komið illa við fjölskyldur þeirra sem fyrir slíkri háttsemi verða og að því sé sjálfsagt að þeir sem næst standa fórnarlömbum meingerðanna njóti sambærilegrar réttarverndar og þeir sem verða fyrir þeim með beinum hætti. Ekki þykir ástæða til að skilgreina hugtakið „fjölskylda“ í frumvarpstextanum heldur er gert ráð fyrir að hugtakið hafi hér sömu þýðingu og fjölskylduhugtak 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá er lagt til að verknaðarlýsingum fyrrgreindra ákvæða almennra hegningarlaga sem mælt er fyrir að séu refsiverð verði breytt og þau útvíkkuð þannig að réttarvernd borgaranna og friðhelgi þeirra verði aukin. Lagt er til í 1.–3. gr. frumvarpsins að í 233. gr. a., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga verði auk ærumeiðinga, aðdróttana, háðs, smánunar og rógs jafnframt gert refsivert að hafa uppi ummæli eða aðdróttanir sem valda eða kunna að valda einstaklingum og fjölskyldum þeirra óþarfa sársauka eða vanvirðu. Slík ákvæði eru að nokkru leyti í samræmi við ákvæði 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Eftir sem áður er mat um það hvort tiltekin ummæli teljast þess eðlis að þau séu til þess fallin að valda þeim sem ummælin beinast að eða fjölskyldu hans óþarfa sársauka eða vanvirðu í höndum dómara á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem fyrir liggja í hverju máli.

Loks er lagt til, skv. 4. gr. frumvarpsins, að við 242. gr. almennra hegningarlaga bætist ný málsgrein sem mælir fyrir um að sé sá sem misgert var við látinn, geti eftirlifandi maki og börn hins látna höfðað mál í hans stað, enda standi þau saman að slíkri málshöfðun. Brot þau sem hér um ræðir geta komið illa við fleiri en þann sem brotið beinist sérstaklega að, t.d. þá sem standa honum næst. Þykir því rétt að veita tilgreindum aðstandendum heimild til þess að hafa frumkvæði að málshöfðun. Lagt er til að sett verði sú sérstaka regla að allir þeir sem heimildin nær til, og á lífi eru þegar mál er höfðað, þurfi að standa saman að málshöfðuninni, enda má ætla að minni ástæða sé til þess að nýta heimildina í þeim tilvikum þegar einhver svo nákominn þeim sem misgert var við vill láta kyrrt liggja.

Herra forseti. Víkjum þá að 5. gr. frumvarpsins. Eins og að framan greinir tryggir ákvæði 26. gr. skaðabótalaga þolendum ærumeiðinga rétt til skaðabóta úr hendi þess sem ábyrgð ber á slíkri meingerð. Þeir dómar sem fyrir liggja í slíkum málum sýna á hinn bóginn að miskabætur vegna meingerða og brota á friðhelgi einkalífsins eru afar lágar. Hafi það verið ætlun löggjafans að tryggja þolendum meiðyrða eða brota gegn friðhelgi einkalífs sanngjarnar bætur vegna slíkra meingerða telja flutningsmenn frumvarpsins að slíku markmiði hafi ekki verið náð, enda sýnir dómaframkvæmd að dómstólar hafa metið æru manna lágu verði. Þá telja flutningsmenn frumvarpsins að löggjöfin hafi haft lítil sem engin varnaðaráhrif gagnvart þeim sem kjósa að láta skoðanir sínar í ljós um einstaklinga því afleiðingar þess að brjóta gegn æru þeirra, persónu eða friðhelgi verða í ljósi dómaframkvæmdar að teljast afar léttvægar.

Samkvæmt 5. gr. frumvarps þessa er lagt til að við 26. gr. núgildandi skaðabótalaga bætist ný málsgrein sem mælir fyrir um að við ákvörðun um fjárhæð bóta vegna meingerðar gegn æru eða persónu annars manns eða fjölskyldu hans, skuli lagt til grundvallar að bótafjárhæð skuli vera fjárhagslega íþyngjandi fyrir þann sem dæmdur er til greiðslu þeirra. Jafnframt leiðir af ákvæði frumvarpsins að hafi meingerð gegn æru eða persónu manns eða fjölskyldu hans verið sett fram í ágóðaskyni skuli það að jafnaði leiða til ríkari bótaskyldu og hærri bótafjárhæðar til þolanda meingerðarinnar. Þá er lagt til að við ákvörðun bótafjárhæðar skuli einnig litið til þess hversu hinn bótaskyldi hefur lagt sig fram um að koma meingerð sinni á framfæri, sem og til þess hvort hann hefur lagt sig fram um að bæta fyrir brot sitt. Færa má góð rök fyrir því að eðlilegt sé að þeir sem hyggjast hagnast sjálfir á kostnað æru og persónu annarra manna skuli bera ríkari bótaskyldu en aðrir sem uppvísir verða að slíkri háttsemi. Jafnframt má færa rök fyrir því að litið verði til þess hvort sá sem bótaskyldur telst hafi lagt sig fram um að bæta fyrir brot sitt, enda mundi slíkt að jafnaði leiða til lækkunar bótafjárhæðar.

Flutningsmenn frumvarpsins telja að hið nýja ákvæði bæti til muna réttarstöðu þeirra sem beittir eru slíkum órétti sem felst í ærumeiðingum og brotum gegn friðhelgi einkalífs. Verði frumvarpið að lögum geta þolendur slíkra meingerða vænst mun hærri miskabóta en nú þekkjast vegna þeirra brota sem þeir kunna að verða fyrir. Gerir ákvæðið ráð fyrir að dómurum verði eftir sem áður falið mat um það hversu háar slíkar miskabætur skuli vera í hvert skipti, en matsheimildir þeirra eru þó bundnar því skilyrði að við ákvörðun bóta sé lagt til grundvallar að þær séu fjárhagslega íþyngjandi fyrir þann sem ábyrgð ber á meingerðinni. Ætla verður að slíka ábyrgð kunni að bera allir þeir sem þátt taka í opinberri umræðu, hvort sem um er að ræða almenna borgara, stjórnmálamenn eða þá sem atvinnu hafa af þátttöku í slíkri umræðu, svo sem blaðamenn, ritstjóra, útgefendur eða eigendur fjölmiðla. Af ákvæðinu leiðir að fjárhæð dæmdra miskabóta hverju sinni taki mið af fjárhagsstöðu þess sem dæmdur er til greiðslu þeirra. Meginröksemdin að baki slíkri bótareglu er að hún leiðir til þess að afleiðingar meingerðar verði þungbær þeim sem uppvís verður að slíku, óháð fjárhagsstöðu. Leiðir reglan til þess að miskabætur kunna að verða breytilegar eftir því hvort í hlut á fjárhagslega sterkur aðili eða ekki. Miðað er við að afleiðingarnar hafi hlutfallslega sambærileg áhrif á fjárhag þeirra sem dæmdir er til greiðslu bótanna hvort sem þeir eru fjárhagslega vel settir eða ekki. Má því segja að hér sé lagt til að komið verði á svokölluðum sektarbótum til handa þolendum líkt og tíðkast samkvæmt meiðyrðalöggjöf í Bretlandi, eða svokölluðum „punitive damages“.

Af framangreindu má ljóst vera að markmið ákvæðisins er annars vegar að auka bótarétt þolenda slíkra meingerða, en ekki síður að haga löggjöfinni þannig að afleiðingar þess að brjóta gegn rétti einstaklinga séu verulegar, einkum ef slíkt brot er framið í ágóðaskyni.

Telja flutningsmenn að verði frumvarpið að lögum muni ákvæðið hafa í för með sér mun meiri varnaðaráhrif gagnvart þeim sem tjá sig opinberlega um samborgara sína. Ef ærumeiðinga- og skaðabótalöggjöfinni verður þannig háttað að ærumeiðandi ummæli um annað fólk gætu leitt til hárra miskabóta mundu þeir sem telja æru þeirra sem þeir fjalla um með meiðandi hætti lítils virði hugsa sig tvisvar um áður en þeir létu til skarar skríða gegn þeim, enda þyrftu þeir hinir sömu þá að standa sjálfir skil á bótagreiðslum. Jafnframt telja flutningsmenn að sú regla sem mælt er fyrir um í 5. gr. frumvarpsins mundi leiða til þess að rekstraraðilar og eigendur fjölmiðla mundu gera aðrar og ríkari kröfur til starfsmanna sinna hvað varðar frjálslega umfjöllun um einstaklinga, enda kynnu ærumeiðandi ummæli í garð annars fólks og brot gegn friðhelgi einkalífs að leiða til ríkrar bótaskyldu eigenda og útgefenda. Slíkir aðilar bera ríka ábyrgð brjóti efni fjölmiðilsins í bága við lög og má þar vísa til 13.–17. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Ég vil þó taka fram að markmið frumvarpsins er annars vegar að auka friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldna þeirra og hins vegar að auka skaðabótarétt þeirra umfram það sem nú er, sem verða og teljast vera þolendur slíkra meingerða. Eflaust má deila um hvort rétt sé að fara þá leið lagatæknilega sem fram kemur í þessu frumvarpi eða hvort það eigi að ná þessum markmiðum fram með einhverjum öðrum hætti. Ég er alveg fús til þess að viðurkenna að það má hugsa sér ýmsar aðrar leiðir við breytingu bæði á ákvæðum skaðabótalaga og einnig á ákvæðum almennra hegningarlaga til þess að ná fram þessum markmiðum. En ég lít hins vegar þannig á að þetta frumvarp sé grunnur sem gott er að vinna með hafi menn á annað borð áhuga á því að gera breytingar á meiðyrðalöggjöfinni eins og hún er, sem ég tel fulla ástæðu til. Enda er það nú þannig þegar menn líta yfir dómaframkvæmd Hæstaréttar að bætur í slíkum málum hafa fram til þessa verið skammarlega lágar og í algeru skötulíki.

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu opinn fyrir því þegar þetta mál verður tekið fyrir í hv. allsherjarnefnd að ræða þá möguleika sem eru í stöðunni til að ná þessum markmiðum fram hvort sem það er gert með þeim hætti sem fram kemur í þessu frumvarpi eða með einhverjum öðrum hætti sem lögspekingar telja skynsamlegt.

Ég vona að hv. þingmenn taki þessu máli vel. Ég held að tími sé til kominn að málefni sem varða meiðyrðalöggjöfina verði tekin til endurskoðunar og faglegrar umræðu hér á þingi og vonast til að þetta frumvarp, sem er þingmannamál sem er flutt af mér sem 1. flutningsmanni og 15 öðrum hv. þingmönnum, fái framgang á hinu háa Alþingi öfugt við flest þau þingmannamál sem lögð eru fram hér.