133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

almenn hegningarlög og skaðabótalög.

21. mál
[16:41]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað af hálfu hv. þm. Eiríks Jónssonar og vildi gjarnan koma að nokkrum atriðum sem hann vék að í ræðu sinni. Hans ábendingar voru fyrir margra hluta sakir áhugaverðar og ýmsar gagnlegar en ég tel samt ástæðu til þess að bregðast við nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hans.

Mér fannst til dæmis, herra forseti, of mikið lagt upp úr því að með þessu frumvarpi sé hvatt til þess að mönnum verði stungið í tukthús fyrir ærumeiðingar gagnvart samborgurum sínum og mikil áhersla á það lögð eða mælst til slíks. Það sem þetta frumvarp gengur út er í raun ekki annað en að breyta núgildandi lögum hvað það atriði varðar. Það er ekkert hreyft við þessum ákvæðum núgildandi almennra hegningarlaga eins og þau hafa verið frá því að þau voru sett árið 1940. Það sem hv. þingmaður kallar að skrúfa upp ákvæði almennra hegningarlaga, sem vísað er til í frumvarpinu og lagt er til að gerð verði breyting á, er einfaldlega viðleitni frumvarpshöfunda til þess að færa þá vernd sem ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga, sem kveður á um ærumeiðingar og vernd, friðhelgi einstaklingsins, til samræmis við þau ákvæði sem fram koma í stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Það er nú öll hugsunin á bak við þetta frumvarp.

Þessi ákvæði kveða á um friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldna þeirra en það gera hin gömlu ákvæði almennu hegningarlaganna ekki. Eins og ég sagði undir lok ræðu minnar má vel vera, eins og hv. þingmaður benti á og ég viðurkenndi það strax, að útfæra megi efnislegar breytingar á almennum hegningarlögum með öðrum hætti en gert er í þessu frumvarpi til þess að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. En ég bendi á þetta af því að hv. þingmaður ræddi mikið um fangelsisákvæðin, að með þessum breytingum er verið að reyna að færa þau til samræmis við ákvæði stjórnarskrár mannréttindasáttmála Evrópu og 3. gr. siðareglna Blaðamannafélagsins.

Hv. þingmaður nefndi hér að verið væri að veðja á rangan hest og beina spjótum á rangt svið með því að hvetja til þess, með framlagningu þessa frumvarps, að hækka bætur vegna ærumeiðinga og slíkra meingerða í stað þess að einblína frekar á aðra þætti hegningarlaga, eins og bætur vegna líkamsárása og kynferðisbrota. Það má það vel vera og ég get alveg tekið undir það að bætur í kynferðisbrotamálum og líkamsárásarmálum eru allt of lágar, en þetta frumvarp fjallar ekkert um það. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni ef hann er þeirrar skoðunar að ástæða sé til að taka almennu hegningarlögin til endurskoðunar, að það sé rétt að gera það og sömuleiðis að taka til endurskoðunar þann bótarétt sem þolendur í slíkum málum njóta. Þetta mál fjallar bara ekkert um það. Hér er einfaldlega verið að leggja til að réttarstaða þolenda ærumeiðinga verði bætt. Ég veit að hv. þingmaður, sem starfar sem lögmaður, hlýtur að viðurkenna að æra manna hefur fram til þessa verið — nema kannski í þessum nýjasta dómi sem hv. þingmaður nefndi — verðlögð ákaflega lágt. Það er náttúrlega meginþunginn í þessu frumvarpi, þ.e. annars vegar að reyna að tryggja fólki friðhelgi í einkalífi sínu gagnvart ýmsum sem taka þátt í opinberri umræðu og hins vegar að tryggja aukinn skaðabótarétt fólks gagnvart þeim brjóta gegn rétti þess. Ég vona að allir geti tekið undir það að sá réttur hefur fram til þessa verið fyrir borð borinn.

Hvað varðar 5. gr. frumvarpsins og hvort rétt sé að mæla svo fyrir um í lögum að teknar verði upp sektarbætur vegna brota sem þessara, þá heyrði ég ekki betur en hv. þingmaður legðist gegn slíku ákvæði. Það er alveg sjónarmið út af fyrir sig að gengið sé langt með því ákvæði sem hér er lagt til, en ég tel og við flutningsmenn að ástæða sé til að gera það í ljósi þeirra atburða sem hafa verið í opinberri umræðu á síðustu árum og missirum. Hugsunin á bak við þetta er sú að ef menn vilja á annað borð taka á þessum málum af einhverri alvöru þá eru tveir kostir í stöðunni. Annars vegar að herða refsingar við brotum sem þessum, annaðhvort að endurskoða fangelsisákvæðin, sem ég er ekkert að leggja til, eða leggja til að sektir verði hækkaðar. Það er hægt að fara þá leið. Ég er á móti því að sú leið sé farin. Ég tel miklu skynsamlegra að kveða á um sektarbætur, „punitive damages“, eins og tíðkast í mörgum öðrum löndum, þar á meðal í Bretlandi, vegna þess að kosturinn við þá reglu er sá að þegar réttur er brotinn á einstaklingi renna slíkar bætur í vasa þolandans en greiðast ekki í ríkissjóð. Það er einmitt kosturinn við þessa reglu að það er þolandinn sem stendur uppi með pálmann í höndunum verði einhver dæmdur fyrir meingerð eins og þessa í hans garð en ekki ríkissjóður.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um takmörkun á tjáningarfrelsi þá held ég að ég hafi farið nokkuð ítarlega yfir það í ræðu minni að ég tel að í þessu frumvarpi felist ekki takmörkun á tjáningarfrelsi. Auðvitað er það svo þegar slík álitaefni koma upp að þá vegast á annars vegar sjónarmið um tjáningarfrelsi og hins vegar um friðhelgi einkalífsins. Tjáningarfrelsið nær ekkert lengra en þangað sem friðhelgi einkalífsins tekur við og það er síðan mat dómstóla hvar mörkin liggja. Ég get ekki séð að það skerði tjáningarfrelsi manna þó svo að bætur vegna slíkra meingerða séu hækkaðar.

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins, frá 13. janúar 2006, þar sem fjallað var einmitt um þetta frumvarp segir, með leyfi forseta:

„Það er rétt hjá Sigurði Kára, að þetta er hægt að gera án þess að skerða tjáningarfrelsið. Það hefur enginn breskur þegn orðið fyrir skerðingu á tjáningarfrelsi sínu vegna breyttrar löggjafar í Bretlandi. Það er auðvelt að koma skoðunum sínum á framfæri án meiðandi ummæla um annað fólk. Það er hægt að halda uppi gagnrýni á menn og málefni án ærumeiðandi ummæla um annað fólk.“

Það er einmitt kjarni málsins og undir þetta tek ég. Menn geta fjallað um hitt og þetta í opinberri umræðu án þess að gera það með meiðandi hætti. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ef menn fara yfir línuna, sem erfitt er að segja hvar er, taki þeir afleiðingunum. Frumvarpið hvetur til þess að menn verði í ríkari mæli en áður gerðir ábyrgir fyrir orðum sínum. Ég er talsmaður þess að tjáningarfrelsið sé virt en frelsinu fylgir hins vegar ábyrgð og ef menn fara yfir strikið finnst mér ástæða til að þeir sem gera slíkt verði látnir blæða fyrir það. Það er einfaldlega þannig.

Herra forseti. Það má svo deila um það hvort ástæða sé til að kveða skýrar á um þá þætti sem eru í 4. gr. frumvarpsins, þ.e. kveða á um það hvort réttur afkomenda þess sem verður fyrir meingerðum eftir að hann er látinn eigi að hljóta ríkari rétt til að höfða mál vegna slíks. Þetta eru atriði sem við þurfum að taka til umræðu í nefndinni þegar málið kemur þangað til umfjöllunar. Ég er alveg tilbúinn til að skoða það og viðurkenni það, alveg reiðubúinn til að skoða hvort það sé yfir höfuð ástæða til að binda þetta ákvæði í lög. Ef í ljós kemur að mér fróðari menn á þessu sviði telja að svo sé ekki þá er það bara svo. Gott og vel, þá komumst við að þeirri niðurstöðu. Ef svo er ekki liggur þessi tillaga fyrir í frumvarpinu, hún er a.m.k. ekki til skaða, að ég tel. En meginatriðið er þetta: Ég tel, og við flutningsmenn þessa frumvarps, að ástæða sé til að einhverjir taki upp hanskann fyrir almenna borgara í þjóðfélaginu og reyni að bera hönd fyrir höfuð þeirra, reyni að bæta réttarstöðu þolenda brota af þessu tagi með því að tryggja það að verði menn dæmir fyrir að fara á svig við lögin renni þær bætur sem til koma og eru dæmdar í vasa þess sem verður fyrir brotinu í stað þess að þær renni í ríkissjóð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, þau eru orðin býsna mörg. Að þessari umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.