133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:36]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hér er hreyft afar stóru og mikilvægu máli sem nokkuð hefur verið á dagskrá í þinginu. Við ræddum málið töluvert í 1. umr. um fjárlagafrumvarp næsta árs. Við höfum rætt þetta töluvert í fjárlaganefnd og eins og fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að síðast á fundi í morgun fórum við yfir gögn með menntamálaráðuneytinu.

Ég er klár á því, frú forseti, að allir nefndarmenn, bæði í fjárlaganefnd og menntamálanefnd, hafa áttað sig á því hve grafalvarlegt þetta mál er. Það blasir við að skera á niður um 300 millj. kr. í framhaldsskólum landsins. Það blasir líka við að það kemur hlutfallslega verst niður á litlu skólunum þar sem mikið er lagt upp úr verknámi. Þetta mál er þess eðlis að víðtæk pólitísk samstaða þarf að nást um að þetta verði leiðrétt.

Til okkar hafa streymt upplýsingar um málið. Eins og ég sagði áðan, frú forseti, trúi ég ekki öðru en allir hv. þingmenn í menntamálanefnd og fjárlaganefnd hafi áttað sig á alvarleika málsins. Það blasir við að við höfum í mörg ár svelt verknámsskóla. Á því var að vísu gerð leiðrétting árið 2004. Það rétti nokkuð hlut þeirra en engan veginn nægjanlega. Þeir hafa ekki fengið að njóta þess vegna þess að fram að þessum degi hafa þeir þurft að nota það sem þeir hafa hagnast af því til að greiða niður uppsafnaðan eldri halla. Til framtíðar litið voru skólarnir jafnvel farnir að horfa til þess að geta farið að njóta þess sem breytt var 2004 en með þeim tillögum sem hér liggja fyrir er það allt dregið til baka.

Frú forseti. Það er mikilvægt að víðtæk pólitísk samstaða náist um að snúa þessari óheillaþróun við.