133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:37]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir furðu minni á þessari uppákomu. Hv. málshefjandi Jón Bjarnason situr í fjárlaganefnd. Málið er í höndum fjárlaganefndar. Það hefur verið unnið að málinu í þrjár vikur. Honum er fullkunnugt um það. Það vita það allir. Honum er líka fullkunnugt um að alger samstaða er í fjárlaganefnd um að vinna að málinu til heilla þessum skólum. Það er enginn ágreiningur þar. Síðast í morgun sátum við ásamt menntamálanefnd á fundi. Þar var enginn ágreiningur heldur.

Málið er hins vegar flókið og erfitt viðureignar vegna þess að reiknimódelið þarf mjög náinnar skoðunar við. Það hefur verið samkomulag í meira en áratug milli menntamálaráðuneytis og fjárlaganefndar um að allar þær breytingar sem gerðar væru skyldum við reyna að gera í sátt.

Hv. fyrirspyrjandi veit að við erum að vinna að þessu. Hann veit það að við höfum dag eftir dag farið í gegnum þetta. Hann veit að það er einlægur vilji okkar að leysa þetta. Það er ekki, virðulegur forseti, til að hjálpa skólunum sem menn koma með svona umræðu. Það er bara til þess að reyna að taka viðkvæmt mál sem allir eru að vinna að og reyna að fleyta einhverjar pólitískar kerlingar. Það er ámælisvert.

Þetta er bara til að tefja störf þingsins en ekki til að upplýsa eitt eða neitt.