133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er furðulegt að heyra stjórnarliða amast við því að þetta mál sé tekið upp og þrýst á um lausn þess. Það er það sem verið er að gera hér. Allt slíkt er kallað upphlaup af hálfu stjórnarliða af því að þeim finnst auðvitað óþægilegt að athygli dragist að því hver frammistaða ríkisstjórnarinnar er og hvað stendur í stjórnarfrumvarpinu. Það er raunverulegt vandamál og það sem verið er að segja hér er að þetta mál verður að leysa. Það er tekið upp til þess að skapa þrýsting á að það verði leyst.

Það er eitthvað nýtt hér í þingsölum ef ekki má taka upp mál og berjast fyrir því að þau hljóti úrlausn. Stjórnarliðar verða því að gera betur en þetta þó að þeir skammist sín fyrir sitt eigið fjárlagafrumvarp. Auðvitað er metnaðarleysið alveg dæmalaust í því sem birtist frá menntamálaráðuneytinu og í tillögum þess eða vinnubrögðum stjórnarliðsins að þessu fjárlagafrumvarpi. Það að verknámið skuli vera svona svelt og svona að því búið ofan í allt talið undanfarin ár um að það verði að fá forgang, ég tala nú ekki um verknám á landsbyggðinni þar sem aðsóknin hefur þó helst haldist uppi, er auðvitað alveg dæmalaust.

Ég skil vel að þeir séu ekki stoltir af þessu, stjórnarþingmennirnir, hvort heldur er í Norðvestur- eða Norðausturkjördæmi. Það þarf ekki litlu skólana til. Ég heimsótti Verkmenntaskólann á Akureyri sem er flaggstofnun í þessum efnum hvað varðar verknám og fjarkennslu á sviði verknáms í landinu, einn stærsti framhaldsskóli ef ekki stærsti framhaldsskóli landsins með 1.200 nemendur, hann býr líka við miklar þrengingar. Þar á meðal er alls ekki að honum búið eins og skyldi til þess að hann geti áfram verið sá brautryðjandi og sú flaggstofnun á sviði verknáms og náms í fjarkennslu og hann hefur verið. Það er nú allur metnaðurinn sem þarna á í hlut.

Þetta þarf einfaldlega að laga og það er dálítið dapurlegt, frú forseti, að ráðherrabekkirnir skuli vera jafnþunnskipaðir og raun ber vitni. (Gripið fram í.) Við erum að hefja fund, það á að fara að greiða atkvæði og þá er staðan þessi. (Forseti hringir.)

Ég mótmæli því að nokkuð sé við það að athuga að þetta mál sé tekið upp undir þeim formerkjum sem hér er gert til þess að krefjast lausnar á því.