133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:48]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim félögum mínum sem hér hafa talað að það er nokkuð einkennilegt upphlaup sem hér á sér stað, ekki síst í ljósi þess að nefndir þingsins sem hafa yfir þessum málum að segja eru að vinna mjög vel að úrlausn mála og þar nefni ég hv. fjárlaganefnd sem og menntamálanefnd. Við áttum mjög góðan fund í morgun, báðar þessar nefndir, með fulltrúum úr menntamálaráðuneytinu. Ég ítreka að það er algjör samstaða um að leysa málið og þess vegna tek ég ekki undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að okkur finnist eitthvað óþægilegt að ræða þetta mál. Okkur finnst það ekkert óþægilegt. Við erum hins vegar á fullu að leysa það á vettvangi þingsins, það er í eðlilegum farvegi í nefndum Alþingis. (Gripið fram í.) Í þessu tilfelli þurfti ekkert upphlaup til að þrýsta á um að leysa þetta mál. Við erum að því. (Gripið fram í.) Þess vegna verðum við auðvitað að treysta því að svo verði.

Hins vegar get ég alveg sagt að við erum með þá stefnu að styðja vel við verknám í landinu (Gripið fram í.) og því verð ég að segja að mér þótti mjög sérstakt að sjá þessar tillögur. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að við leysum þetta. Ég get nefnt sem dæmi, af því að hv. þingmaður nefndi skólana, að bara í tilviki Verkmenntaskólans á Akureyri, þýðir þetta um 70 milljónir sem þeir verða að skera niður. Það er háalvarleg staða. Ég vil alls ekki gera lítið úr því en hins vegar finnst mér þetta ekki réttur farvegur þegar svo góð samstaða hefur skapast um að leysa þetta mál milli okkar þingmanna í hv. menntamálanefnd og fjárlaganefnd sem og með ráðuneytinu. Við erum að vinna að lausn þessara mála og það er í réttum farvegi í nefndum Alþingis.