133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Um það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun af þessari ríkisstjórn að hækka skuli menntunarstig þjóðarinnar. Ef fylgja á þeirri pólitísku stefnumörkun eftir og þeirri pólitísku stefnumörkun sem kemur fram í byggðaáætlun leggja menn ekki fram fjárlagafrumvarp með þeim hætti sem gert hefur verið hér. Menn leggja ekki fram fjárlagafrumvarp þar sem framhaldsskólarnir eru skornir á þeim nótum sem gert er í því fjárlagafrumvarpi sem við höfum í höndunum og erum að tala um, bæði í þingsölum og í nefndum þingsins. Auðvitað þurfa stjórnarliðar að átta sig á því að það er eðlilegt að gagnrýni komi, bæði utan úr samfélaginu frá því fólki sem á að starfa undir þessum kringumstæðum og ekki síður frá okkur sem sitjum á Alþingi Íslendinga.

Það er auðvitað til minnkunar fyrir ríkisstjórnina að hún skuli vera að reyna að lappa upp á fjárlagafrumvarpið á þessum nótum. Af hverju standa menn ekki fyrir því og segja að það hafi orðið mistök og leiðrétta þetta í eitt skipti fyrir öll? Þetta er spurning um 300 milljónir sem menntamálaráðuneytið þarf að skera niður. Af hverju segja menn ekki að það hafi orðið mistök og þau verði leiðrétt? Af hverju þarf marga langa fundi í nefndum þingsins til að ræða þetta fram og til baka ef þetta eru mistök?

Þetta er í öllu falli á skjön við það sem hér hefur verið samþykkt, þetta er líka á skjön við það sem ráðherrar hafa sagt í hátíðaræðum um stöðu verknáms og starfsnáms í landinu. Það er fullkomlega eðlilegt að menn rukki stjórnarliða um þá pólitísku stefnu sem þeir þykjast fylgja. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að maður skuli þurfa að horfa á hagræðinguna innan framhaldsskólakerfisins á þeim nótum sem við fáum upplýst að hún sé orðin núna. Það er búið að skera þar hvern skólann af öðrum inn að beini og skilaboð fjárlagafrumvarpsins núna eru svo köld að það er fullkomlega eðlilegt að við fáum ákall af því tagi sem sent var til þingmanna Norðvesturkjördæmis í gær. Því ákalli (Forseti hringir.) erum við auðvitað að reyna að svara hér.