133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heildarstefna í nýsköpun og atvinnuþróun.

300. mál
[14:18]
Hlusta

Flm. (Sigríður Ingvarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem fram kemur á þskj. 315 þar sem lagt er til að forsætisráðherra og iðnaðarráðherra verði falið að skipa nefnd til að móta heildarstefnu í nýsköpun og þróun og gera framkvæmdaáætlun í formi skýrslu sem skila á til Alþingis fyrir árslok 2007. Nefndin skal skipuð sjö fulltrúum og skal einn tilnefndur af forsætisráðherra sem jafnframt verður formaður, einn af iðnaðarráðherra, einn tilnefndur fyrir hönd opinberra stofnana, einn tilnefndur af samtökum fyrirtækja, tveir frá háskólum og einn frá frumkvöðlum tilnefndur af iðnaðarráðherra.

Í heildarstefnu í nýsköpun og atvinnuþróun er mikilvægt að skoðaðar séu leiðir til að efla rannsóknastarf innan háskólanna og tengja það fyrirtækjum. Þá þarf einnig að skoða hvernig unnt sé að auka framboð fjármagns til nýsköpunar, t.d. hvernig nota megi skattkerfið til að koma til móts við fyrirtæki á sviði þróunar og nýsköpunar og skoða hvernig skattumhverfi nýsköpunarfyrirtækja er hjá þeim þjóðum sem koma hvað best út á lista stofnunarinnar.

Víða í nágrannalöndum okkar fjárfestir hið opinbera ríkulega í nýsköpun með langtímaaðgerðum. Ágóðinn kemur síðan fram í formi öflugs, fjölbreytts atvinnulífs, bættrar samkeppnishæfni og skatttekna í framtíðinni. Þar sem hins vegar er ekki fjárfest í nýsköpun verður atvinnulíf einsleitara, samfélög staðna og verða viðkvæmari fyrir sveiflum. Það leiðir til þess að láglaunastörfum fjölgar sem getur þýtt byggðaröskun og atgervisflótta. Nýsköpun, menntun og símenntun sporna við slíkri þróun.

Við Íslendingar áttum því láni að fagna að fá Michael E. Porter, einn helsta fræðimann á sviði stefnumótunar og stjórnunar, hingað til lands 2. október sl. Á fundi á Nordica-hóteli var fjallað um samkeppnishæfni þjóða og þar kom fram margt athyglisvert, enda afar fróðlegt að heyra manninn sem á hugmyndafræðina að baki mælingum um samkeppnishæfni þjóða fjalla um stöðu Íslands og fara yfir styrkleika og veikleika landsins og áhersluatriði ýmiss konar sem þarft er að benda á.

Porter byrjaði reyndar á að óska Íslendingum til hamingju með þann góða árangur sem náðst hefði á síðustu 10–15 árum en minnti jafnframt á að það væri endalaus vinna að viðhalda samkeppnishæfninni. Stöðugt þyrfti að skoða hver samkeppnisstaða okkar væri á hinum ýmsu sviðum og leita leiða til að styrkja hana. Porter minnti á að aðeins fyrirtæki gætu skapað gróða. Ríkið getur eflt arð í formi auðlinda en fyrirtækin eiga að skapa verðmæti. Porter fullyrti að allar atvinnugreinar væru hátæknigreinar og varaði eindregið við því að gefast upp á atvinnugreinum, heldur byggja upp þekkingu í kringum þær og ná þannig fram meiri framleiðni og bæta samkeppnisstöðuna. Nýsköpun og þróun skipa í þessu sambandi mikilvægan sess en Ísland er ekki nema rétt í meðallagi hvað nýsköpun varðar og er það ekki ásættanlegt þar sem nýsköpun er undirstaða hagvaxtar landsins.

Porter varð tíðrætt um klasa og klasasamstarf, m.a. til að auka nýsköpun og bæta þekkingu og samkeppnishæfni fyrirtækja. Hann sagði að þjóðir eða svæði kepptu í því að bjóða afkastamesta umhverfið fyrir fyrirtækin og Porter lagði enn fremur mikla áherslu á samvinnu fyrirtækja, háskóla og hins opinbera til eflingar atvinnulífinu. Er það afar nauðsynlegt til styrktar nýsköpun og þróun. Íslenskt þjóðfélag þarf að hafa á að skipa vinnuafli með kunnáttu og hæfni til að uppfylla allar starfsgreinar og gera þær samkeppnishæfari.

World Economic Forum flokkar þjóðir á þrjá vegu eftir þróunarstigi þeirra. Ísland tilheyrir stigi þrjú sem er nýsköpunarstig því að vaxtarmöguleikar eru taldir grundvallast á nýsköpun. Flokkunin tekur einnig mið af þjóðartekjum á mann, og þær þjóðir sem flokkaðar eru sem nýsköpunarþjóðir eru taldar eiga mikið undir því að þróa nýja tækni og ná þar með auknu samkeppnisforskoti en aftur á móti geta minna þróaðar þjóðir aukið framleiðni sína með því að tileinka sér textatækni og þekktar framleiðsluaðferðir.

Michael Porter sagði að ríki fengju ekki samkeppnisstöðu sína í arf. Hæfni fyrirtækjanna til nýsköpunar og þróunar væri það sem skipti meginmáli fyrir samkeppnishæfnina. Þjóðir skapa sér samkeppnisforskot í þeim greinum þar sem umhverfið heima fyrir sé framsýnast, sveigjanlegast og mest krefjandi. Geta einstakra landa til nýsköpunar er háð því að stoðkerfið sé styrkt og ríkið styðji við hátækni- og sprotafyrirtæki. Það verður að viðurkennast að stoðkerfi annarra Norðurlandaþjóða er mun þróaðra á mörgum sviðum en Íslendinga, e.t.v. vegna langrar iðnsögu þar.

Þegar litið er á hlutfall hátækni í útflutningi landsins kemur í ljós að vægi hennar er einungis 7% í útflutningi á meðan Finnland og Svíþjóð eru með um og yfir 20% og Írland yfir 40% samkvæmt GEM-rannsókn og Frumkvöðlapúlsi HR 2005. Mikilvægt er að tengja betur saman háskólana, einkafyrirtækin og hið opinbera. Í flóknari viðskiptaheimi þar sem hátækni er að ryðja sér til rúms hlýtur að þurfa vel menntað fólk til að takast á við krefjandi verkefni frumkvöðla en samkvæmt Frumkvöðlapúlsi HR 2005 sem unninn var í samstarfi við GEM-rannsókn er hlutfall háskólamenntaðra einstaklinga 18–64 ára sem taka þátt í frumkvöðlastarfsemi einungis 9,5%. Samkvæmt sömu könnun kemur í ljós að heildarhlutfall frumkvöðla með háskólamenntun er aðeins 22,8% sem verður að teljast verulega lágt. Efla þarf rannsóknastarf innan háskólanna og tengja það betur fyrirtækjunum í landinu. Eins er vert að skoða hvort hægt sé að nota skattkerfið til að koma til móts við fyrirtæki á sviði þróunar og nýsköpunar.

Sviss trónir nú í fyrsta sæti á lista World Economic Forum yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims. Það sem Svisslendingum hefur tekist á undanförnum árum er að byggja upp öruggt stofnanakerfi, frábæra innviði, skilvirka markaði og tækninýsköpun á afar háu stigi auk þess sem fyrirtækin þar verja miklum fjármunum í þróunarkostnað. Eins er setningavernd sterk og stofnanir á vegum hins opinbera gagnsæjar og traustar. Með aukinni menntun vinnuafls sem síðan skilar sér inn í fyrirtæki í hátækniiðnaði og nýsköpun getum við líka farið að dæmi Finna sem eru nú í 2. sæti sem samkeppnishæfasta hagkerfi veraldar samkvæmt World Economic Forum en á síðustu sjö árum hefur Finnland fimm sinnum verið í efsta sæti.

Finnar komust á sínum tíma út úr kreppu með því að leggja áherslu á menntun vinnuafls og nýsköpun. Sagan sýnir að hagkerfi þeirra breyttist frá því að vera hráefnadrifið yfir í að vera þekkingardrifið og frá 1990 til ársins 2006 fór útflutningur hátæknivara þeirra úr 6% upp í 20%. Það sem gerst hefur í Finnlandi er að menntunarstig þjóðarinnar er orðið afar hátt og gæði menntunar í stærðfræði og raungreinum eru mikil. Atvinnulífið hefur tekið upp nýja tækni fljótt og vel og stundar öfluga nýsköpun og rannsókna- og þróunarstarfsemi. Miklum fjármunum hefur á undanförnum árum verið varið í rannsóknir og þróun og kerfisbundin hagnýting tækninýjunga hefur átt sér stað í rekstri og þjónustu. Hagstjórn er traust auk þess sem stofnanakerfið er í hæsta gæðaflokki.

Vilji virðist vera fyrir því hjá ráðamönnum þjóðarinnar að leggja áherslu á nýsköpun. Í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra þann 3. október sl. kom fram í máli hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar mikill vilji og þung áhersla af hálfu ríkisstjórnarinnar til að efla nýsköpun í landinu.

Þjóðir eru líklegar til að ná samkeppnisforskoti í atvinnugreinum eða afmörkuðu sviði greina þar sem samspil áhrifaþátta og vaxtarþátta eru hvetjandi. Fram kemur í könnun World Economic Forum að veikleikar Íslands felist m.a. í getu til nýsköpunar. Fjármögnunarferli sprotafyrirtækja hefur reynst mörgum frumkvöðlunum mjög erfitt og margir tala um að óbrúuð gjá ríki varðandi nýsköpunarþætti, og hana þarf að brúa. Nýsköpunarfyrirtækjum þarf að standa til boða heillegt fjármögnunarferli þar sem eitt tekur við af öðru á meðan fyrirtækin ganga í gegnum ákveðið þróunarþrep. Margir segja að eitthvað sé ómögulegt en allar framfarir hafa orðið fyrir tilverknað þeirra sem héldu hinu gagnstæða fram. Það skulum við Íslendingar hafa í huga og marka metnaðarfulla stefnu hvað varðar nýsköpun og þróun. Fyrirtækjaumhverfi á Íslandi er mjög gott og fyrirtækjaskattar eru með því lægsta sem gerist og margir aðrir jákvæðir þættir styðja við fyrirtækjarekstur hér á landi. Nýsköpun er undirstaða hagvaxtar hér á landi og því ber okkur að hlúa vel að henni.

Samkeppni þjóða eða svæða felst í að bjóða upp á afkastamesta og frjóasta umhverfið að mati Porters. Þar sem ekki er fjárfest í nýsköpun verður atvinnulíf einsleitara og samfélagið getur staðnað. Hér á landi hefur verið unnið nokkuð í nýsköpunar- og þróunarmálum, m.a. með stofnun Tækniþróunarsjóðs og einnig hefur framboð fjármagns aukist nokkuð. Þá hefur Vísinda- og tækniráð samþykkt vísinda- og tæknistefnu 2006–2009 þar sem fram kemur ákveðin framtíðarsýn og lagðar eru til leiðir til að ná henni. Flutningsmenn telja þó að sú tillaga sem hér um ræðir sé mun víðtækari og feli í sér meiri heildarsýn þar sem lögð er áhersla á að skoða hvers vegna staða Íslands í nýsköpun og þróun er ekki betri og hvernig aðrar þjóðir hafa snúið þessari þróun sér í hag. Þannig er nauðsynlegt að auka framboð fjármagns til nýsköpunar til framtíðar litið. Þá er einnig nauðsynlegt að skoða hvernig hægt er að hvetja til aukinnar samvinnu þvert á atvinnugreinar og styrkja rannsókna- og fræðslustarf með það að markmiði að koma betur til móts við þarfir fyrirtækja og frumkvöðla. Ég tel mikilvægt að mótuð verði heildarstefna og tekin saman sú vinna sem fram hefur farið á þessu sviði. Það er mikilvægt að litið verði til þess hvernig aðrar þjóðir sem eru ofarlega á listum World Economic Forum styðja við nýsköpun og þróun og hvernig það hefur reynst.

Ég tel aðkallandi að opinberar stofnanir, fyrirtæki, frumkvöðlar og háskólar taki höndum saman til að virkja þá hugmyndaauðgi og áræðni sem býr í nýsköpun með því að styðja við hana með virkum hætti. Það er frumkvöðlanna og fyrirtækjanna að sýna frumkvæði og sinna nýsköpun og þróun en það er ríkisins að skapa góða umgjörð, hafa sanngjarnt lagaumhverfi og skýra framtíðarsýn í þessum efnum.

Að lokinni umræðu um þetta legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. allsherjarnefndar.