133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heildarstefna í nýsköpun og atvinnuþróun.

300. mál
[14:39]
Hlusta

Flm. (Sigríður Ingvarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni kærlega fyrir umfjöllun sína um málið. Mér heyrist við mjög sammála í þessum efnum. Hið eina sem hann deildi á í ræðu minni var byggt á misskilningi. Hann hefur greinilega ekki hlustað nógu vel. Ég sagði áðan að fjármögnunarferli sprotafyrirtækja hefði reynst mörgum frumkvöðlinum mjög erfitt og að margir hefðu talað um að óbrúuð gjá væri varðandi nýsköpunarþætti. Hana þarf svo sannarlega að brúa. Þetta hefur oft verið nefnt nýsköpunargjá, þar sem við höfum nokkra sjóði fyrst í ferlinu en síðan tekur ekkert við þar til fjárfestar eða „englar“ koma að málum. Þessa gjá þurfum við að brúa.

Ég sagði líka að nýsköpunarfyrirtækjum þyrfti að standa til boða heillegt fjármögnunarferli þar sem eitt tekur við af öðru á meðan fyrirtækin ganga í gegnum ákveðin þróunarþrep. Við höfum ákveðna sjóði fyrir fyrirtæki á frumstigum en allt of oft ná efnileg fyrirtæki ekki að halda út nógu lengi og gefast upp þrátt fyrir góðar hugmyndir. Við þekkjum það meira að segja af stórfyrirtækjum eins og Össuri, Marel og Actavis að lengi vel áttu þessi fyrirtæki í mjög miklum erfiðleikum. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef þau hefðu ekki komist yfir þann hjalla.

En í nýsköpunarfyrirtækjum búa miklir vaxtarmöguleikar fyrir landið. Ég held að við þurfum að hlúa vel að þessum fyrirtækjum. Ég þekki það í gegnum starf mitt sem verkefnisstjóri á Impru nýsköpunarmiðstöð að ýmislegt gott er að gerast en betur má ef duga skal.

Varðandi þá tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að hefði verið samþykkt hérna 2004 þá er mér er fullkunnugt um hana. En ég er að hugsa um þetta víðar og í stærra samhengi. Þar var aðallega tekið mið af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Ég er að hugsa um heildarstefnu, að hið opinbera, fyrirtækin og háskólarnir taki höndum saman um að mynda heillegt stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun og þróun.