133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[14:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta frumvarp lætur lítið yfir sér og munar ekki stóru. Það er verið að leggja þarna um 239 kr. aukalega viðbótar á hvern landsmann. Það er í þágu góðs málefnis, þ.e. byggingar heimila fyrir aldraða og allt er þetta hið besta mál að öðru leyti en því að um er að ræða nefskatt sem ætíð hlýtur að vera mjög ófélagslegur þar sem þá sem hafa háar tekjur munar ekkert um hann en hina sem hafa lágar tekjur getur munað um þetta gjald sem verður 6.314 kr. á ári.

Það sem ég er aðallega að tala um, frú forseti, og hef gert áður er sú flæking sem felst í þessu gjaldi. Við erum nefnilega með annað gjald sem er neikvæður persónuafsláttur eða nefskattur sem er persónuafslátturinn. Hvers vegna í ósköpunum lækkum við hann ekki um 6.314 kr. sem kemur nánast eins út fyrir alla í stað þess að vera með þetta á tveimur stöðum? Þegar ég segi nánast eins þá kemur hann ekki eins út fyrir þá sem eru 70 ára eða eldri. Þeir sleppa við þetta gjald sem hér er um rætt en ég tel að það sé ekki vandamál. Það má laga með því að hækka ellilífeyri sem því nemur.

Ég hef margoft lagt til að við breytum þessu. Við verðum með óbreyttan persónuafslátt, sem reyndar er einnig lagt til að breyta í frumvarpi sem við ræðum næstu daga. Við verðum með ákveðinn persónuafslátt og síðan standi: Persónuafslátturinn skal lækka um 6.314 kr. sem renni til þeirra verkefna sem Framkvæmdasjóði aldraðra er falið. Ég hef líka lagt það til varðandi hið nýja útvarpsgjald sem menn hyggjast leggja á, sem líka er nefskattur og tengist þessu gjaldi en samt ekki alveg því að útvarpsgjaldið er líka lagt á öll fyrirtæki í landinu, þar á meðal 20 þús. einkahlutafélög sem flest eru ekki til, ekki starfandi og munu því aldrei greiða gjaldið. Ég hef lagt til að hvort tveggja verði sett inn í persónuafsláttinn, hann verði lækkaður og tekið fram að hann sé ákveðin krónutala. Síðan lækki hann um 6.314 kr. sem renni til Framkvæmdasjóðs aldraðra og svo lækki hann um 15.500 kr. sem er minnir mig gjaldið til RÚV. Sú lækkun rynni til RÚV. Allt væri þetta mjög einfalt, bara einn skattur, ekki tvenn skattalög. Þetta yrði einföldun á málinu í flóknu þjóðfélagi og einfaldara að útskýra fyrir fólki sem vill fá skýringu á því hvað það er að greiða.