133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu kemur fram frumvarp. Það hefur alltaf verið talað um það og var alveg ljóst þegar samkomulagið var gert við Landssamband eldri borgara í sumar að það þyrfti lagafrumvarp til að hrinda því öllu í framkvæmd. Það er ekki hægt að vinna eftir því samkomulagi nema breyta lögum. Það er frumvarp á leiðinni í þingið. Ég vonast til að geta mælt fyrir því í lok næstu viku, ég vona að það takist. Það fer síðan til heilbrigðisnefndar og er mikilvægt að það fái góða og skjóta afgreiðslu þar. Ég held að þingmenn þekki þetta, a.m.k. þeir sem eru inni í þessum málum þekkja ágætlega til samkomulagsins og Landssamband eldri borgara þekkir það auðvitað mjög vel. Málið á því ekki að þurfa að taka mikinn tíma í þinginu. Það er brýnt að það verði að lögum fyrir jól því að ýmis ákvæði í því eiga að taka gildi frá og með áramótum þannig að það þarf að klára það.

Í því frumvarpi mun verða ákvæði um Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að það á að fasa út það fjármagn sem tekið hefur verið í rekstur í öldrunarþjónustunni og fjármagnið á að fara í uppbyggingu nýrra rýma. Og m.a. á grundvelli samkomulagsins og viðbótarfjármagns upp á um 1,3 milljarða samtals verður hægt að byggja upp ný rými á næstu árum eins og samkomulagið felur í sér.

Þetta frumvarp er á leiðinni og ég vonast til að geta mælt fyrir því í lok næstu viku. Það var alltaf ljóst að slíkt frumvarp yrði að koma fram.