133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að taka fram vegna þessarar umræðu að eins og fram kom áðan þá borgar lágtekjufólk ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það kom fram áðan en mér finnst rétt að árétta það.

Varðandi samkomulagið er ljóst að flytja þarf lagafrumvarp út af mörgum ákvæðum sem í samkomulaginu eru eins og komið hefur fram. Ég er reyndar ekki með það frumvarp til framsögu þannig að ég vil ekki fara mjög náið í það en ef ég man rétt eru í því frumvarpi ákvæði um að fasa út þær upphæðir sem hafa runnið til rekstrar og er það gert í ákveðnum þrepum. Upphæðirnar sem lúta að þessum þrepum eru alveg naglfastar og frumvarpið mun endurspegla það samkomulag. Ég held að það þurfi því enginn að óttast neitt um það.

Að sjálfsögðu ætla stjórnvöld að standa við þetta samkomulag. Samkomulagið nær yfir fjögurra ára tímabil en hv. þingmaður veit eins og ég að það er alltaf hægt að breyta lögum á Alþingi. Það er þó yfirleitt ekki skynsamlegt að gera nema það horfi til góðs. Við munum því standa við það samkomulag sem við höfum gert við eldri borgara. Það felur í sér að að lokum fer allt fjármagnið úr sjóðnum í byggingu nýrra rýma, ekki í rekstur.

Frumvarpið sem kemur inn í þingið mun endurspegla það. Þá getum við farið út í tæknilegri umræðu um útfærsluna á samkomulaginu og hvernig hún kemur fram í frumvarpinu. En það stendur að sjálfsögðu til að standa algjörlega við samkomulagið.